Að hampa mótlætinu
Ég er af góðæriskynslóðinni. Dekurkynslóð kalla hana sumir. Það mætti jafnvel segja að ég hafi verið alin upp undir Kaupthinking-möntrunni alræmdu; „ég get ef ég trúi því að ég geti það“. Reyndar hafði ég ekki áttað mig á að ég tilheyrði neinni sérstakri kynslóð fyrr en ég fór að heyra fólk út undan mér fárast yfir þessu unga fólki sem sleit barnsskónum í taumlausu góðæri, þekkti ekkert nema meðbyr og velsæld, sannfært um að það gæti allt og heimurinn væri leikvöllurinn þess.
Með þessum orðum var búið að skilgreina mig og ég get ekki neitað því að lýsingin sé rétt, þótt mér hafi ekki lærst að líta þessa eiginleika neikvæðum augum. En nú heyri ég að við unga fólkið höfum gott af því að læra hvernig „lífið er í alvöru“ og það er sko ekki eins og við héldum, ónei. Reyndar höfum við þegar fengið að læra ýmsan sannleik sem stangast á við okkar björtu góðærisheimssýn. Mér var t.d. innrætt sú staðfasta trú að maður ætti að eiga en ekki leigja.
„Að leigja er að kasta peningum út um gluggann“ man ég að ég ályktaði við vinkonur mínar í gagnfræðaskóla og við vorum sammála um að þegar við flyttum að heiman væri rétta skrefið að kaupa, því þannig eignaðistu verðmæti með hverri afborgun. Þetta reyndist hrapallegur misskilningur, eftir allt saman er víst best að eiga ekki neitt. Þetta var fyrsta leiðrétting á góðæristrúnni. Sú næsta virðist ætla að vera sú að heimurinn liggi alls ekki að fótum okkar eins og við héldum. Góðæriskynslóðin mín óx úr grasi með ótæmandi kaupmátt, óteljandi tækifæri og öryggi um framtíðina. Við stúdentspróf var vafinn: á ég að fara í háskóla hér eða í útlöndum? Á ég kannski að byrja á því að fara í heimsreisu fyrst? Eða fá mér vinnu? Atvinnuleysi, hvað er það?
Ótrúlega margir Íslendingar undir þrítugu hafa ferðast um tugi landa, jafnvel mánuðum saman í fjarlægum heimsálfum, og enn fleiri hafa stundað nám erlendis, ekki endilega námsins vegna heldur lífsreynslunnar.
Í þessu umhverfi trúði ég aldrei, í einfeldni minni, að ég myndi tilheyra kreppukynslóð. Það eru því ekki lúxusbílarnir, hönnunarvörurnar og glæsihýsin sem ég sakna frá góðærinu, enda átti ég ekkert af þessu þótt ég hefði auðvitað hæglega getað orðið mér úti um það allt saman hefði ég kært mig um. Það sem ég sakna er þessi allsráðandi tilfinning að allar leiðir séu færar, eina vandamálið sé um hversu margar spennandi leiðir er að velja. Það var góð tilfinning.
Nema nú heyri ég að þessi góðærislífssýn sé sjálfsdekur sem tímabært sé að láta af. Var það þá sjálfsblekking allan tímann að lífið sé eitthvað meira en brauðstrit? Nei. Ég er ekki tilbúin að láta af þessari sjálfsöruggu barnatrú. Ég er tilbúin að lifa sparlegar og takast á við kreppuna af æðruleysi, en ég ætla að viðhalda góðærinu innra með mér. Ég ætla að trúa því áfram að ég geti, að ég eigi erindi við heiminn og sé hér til þess að njóta hans.
Birtist fyrst sem pistill í Morgunblaðinu 25. september 2009
Engin ummæli:
Skrifa ummæli