föstudagur, október 23, 2009

Á föstudegi - Ranghugmyndir

Ég er 167 sentimetrar að hæð og þessa dagana 70 kíló, þyngri en ég hef nokkru sinni áður verið. Fyrir 5 árum, þegar ég var 19 ára, var ég 10 kílóum léttari og þegar ég var 14 ára var ég 15 kílóum léttari. Kannski ekki heillavænleg þróun en það stendur líka ekki til að bæta við 15 í viðbót. Alla mína tíð hef ég nú samt skilgreinst sem „heilbrigð" samkvæmt BMI stuðlinum svokallaða, ég hef alltaf verið og er enn í kjörþyngd þótt það sveiflist eitthvað til hvort ég er nærri efri mörkunum eða neðri.

Þegar ég var unglingur var raunveruleikinn hinsvegar allt annar - inni í höfðinu á mér.

Fyrsta minningin mín af því að finnast ég vera of feit er frá því ég var 12 ára. Þetta var á heitum sumardegi og þegar síðdegisbirtan varð gullin tók mamma mynd af mér í góða veðrinu. Ég var klædd í stuttbuxur og stuttermabol og ég man að ég var ósátt við þessa myndatöku því ég var viss um að þessi hræðilega bumba hlyti hreinlega að vella yfir buxnastrenginn. Það var ekki fyrr en nokkrum árum seinna sem ég fann þessa mynd og fattaði hvað ég hafði ótrúlegar ranghugmyndir um sjálfa mig, því myndin er óumdeild sönnun þess að ég var tággrönn þennan dag, meira að segja með mjög skorna vöðva á handleggjum og kálfum og rennisléttan maga.

Ég hef verið svona 17 ára þegar ég fattaði hvað ég var vitlaus þegar ég var 12 ára, en það tók mig nokkur ár í viðbót að fatta að ég var ennþá alveg jafnvitlaus. Þegar ég var 17 ára var ég nefnilega líka sannfærð um að ég væri nú frekar búttuð, samt var ég varla meira en 60 kíló og því augljóslega alveg nógu grönn. Núna öllum þessum árum og kílóum síðar er ég sem betur fer sátt með mig og finnst ég líta vel út. Ég veit líka að ég er í kjörþyngd og kroppurinn á mér er fílhraustur. Hvílík synd að eyða 10 árum í að vera ósátt við hann.

Ég skil ekki ennþá hvernig ég gat séð mig í svona röngu ljósi og þess vegna skil ég ekki heldur þegar ég hlusta á vinkvennahópa á þessu reki í sturtuklefunum þegar ég fer í sund. Þar heyri ég stelpur sem eru ennþá að vaxa og ættu þar af leiðandi að vera að þyngjast fagna því að hafa misst tvö, ósýnileg kíló. Rétt eins og ég áður sjá þær sjálfar sig í einhverjum fáránlegum spéspegli eigin augna. Mig langar til að hrista þær hressilega en efast um að það dugi til, það eina sem ég get gert er að vona að þær læri bráðum að sjá sig í réttu ljósi og skilji að þær eru ekki feitar og ljótar. una@mbl.is

Birtist sem föstudagspistill í Daglegu lífi Morgunblaðsins 23. október 2009.

Engin ummæli: