Hressandi mánudagsmisþyrming
Það getur verið varasamur formáli fyrir draumaheiminn að horfa á Ríkissjónvarpið. Á mánudag kveikti ég í sakleysi mínu á Rúv og sá þar stelpu á mínum aldri sem hafði verið strengd upp með keðju í hlöðu þar sem verið var að pynta hana, en þess á milli var hún geymd í búri inni í helli. Þetta var þátturinn Criminal Minds, og áður en honum lauk var búið að búta nokkrar jafnöldrur mínar niður með öxi eftir að þeim hafði verið misþyrmt á alla mögulega vegu. Í fyrrakvöld kveikti ég aftur á Rúv og sá þar aftur stelpu á mínu reki sem var einmitt líka í einhverju búri úti í skógi öll lemstruð að berja hníf í vegg. Þetta var skilst mér sænsk hryllingsmynd en ég meikaði ekki að horfa á hana. Þeir eru ótrúlega margir þessir þættir á Rúv þar sem er alltaf verið murka lífið úr stelpum eins og mér á einhvern viðbjóðslegan hátt. Rúv má alveg eiga það að þetta er yfirleitt vandað sjónvarpsefni, vel skrifað og svona, en ég verð að viðurkenna að það tekur á taugarnar mínar að horfa á þetta til lengdar. Allavega svona rétt fyrir svefninn. Láir mér einhver þó að ég kjósi frekar að horfa á stelpur sem skakklappast í tískufötum í von um að verða súpermódel? Þær lifa þó þáttinn af í heilu lagi.
Birtist sem Ljósvakapistill í Morgunblaðinu föstudaginn 23. október 2009.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli