miðvikudagur, október 21, 2009

Gamlir ósiðir

Það bregst ekki, heyrist minnst á mansal í fréttum spretta upp eins og gorkúlur menn sem er mjög mikið í mun að réttlæta vændi sem starfsgrein. Það er athyglisvert hvað það er mörgum mikið kappsmál að halda til haga ímynd hamingjusömu hórunnar og grípa til þess hvert tækifæri, jafnvel þótt tilefnið sé þrælasala á 19 ára gamalli stúlku á milli landa.

„Vændi er elsta starfsgrein heims“ er fullyrðing sem hver étur upp eftir öðrum og virðist vera ein sterkustu rökin fyrir því að best sé að gleyma bara þessum áhyggjum af vændi og hætta að reyna að uppræta það, því „þörfin fyrir vændi er greinilega gríðarleg í samfélaginu“ eins og sagði á einu bloggi. Það er athyglisvert að aðrir frumstæðir siðir sem tíðkast hafa jafnlengi og vændi, s.s. þrælahald, dauðarefsingar, jafnvel spilling og mútuþægni, njóti ekki stuðnings með sömu rökum. Einhverra hluta vegna er það bara vændi sem á að eiga sér tryggan virðingarsess í menningu okkar fyrir aldurs sakir. Bara vændi sem talið er vera órjúfanlegur hluti mannlegs eðlis.

Það virðast líka vera ýmsar mannúðarástæður fyrir því að sætta sig við tilvist vændis. Til dæmis að ef ekki væri fyrir vændi fengju fjölmargir núverandi kaupendur þess annars ekki að njóta neins kynlífs, eins og góðfúslega hefur verið bent á, á bloggi Frjálshyggjufélagsins. Því þótt til séu menn sem geta ekki fengið konur viljugar til lags við sig á eigin forsendum eiga þeir auðvitað samt rétt á því að fá að ríða konum ekki satt? Það er göfugt af frjálshyggjumönnum að standa vörð um mannréttindi þessa hóps, þótt rannsóknir sýni reyndar flestar að meirihluti kúnna vændiskvenna séu giftir menn.

Hugsjónin endar heldur ekki þar, því það er ekki bara vegna vesalings kynsveltu karlanna sem vændi er í raun fallegt, gott og sjálfsagt, heldur er það líka hagur okkar kvenna, segja þeir sem hvað dýpstan skilning hafa á eðli vændis. Með því að hleypa þeim körlum, sem engar konur vilja líta við, upp á vændiskonur má nefnilega gefa þeim útrás fyrir kynþörfina og koma þannig í veg fyrir að þeir nauðgi okkur hinum.
Konur eiga líka að standa saman og þess vegna ættum við auðvitað sem flestar að taka það að okkur að leggjast undir þessa menn áður en þeir taka upp á því að gera það gegn vilja einhverrar okkar. Talsmenn vændis segja líka að í flestum tilfellum sé það val kvennanna að feta þessa braut, þar sem þær sjái þar góða tekjumöguleika. Ekki ætla ég að þræta fyrir það. Sennilega er það rétt að sumar konur eygi helst tekjumöguleika með því að selja sjálfar sig, en er það ásættanlegur veruleiki að vændi sé besti möguleikinn sem þessum konum stendur til boða?

Það segir ýmislegt um menn í mínum huga á hvora vogarskálina þeir kjósa að leggja lóð sitt, þegar þessi umræða kemur upp. Að vændi sé eðlilegur, jafnvel nauðsynlegur hluti samfélagsins eða að það sé slæmt og því ekki hægt að sætta sig við það. Það hryggir mig hversu margir velja fyrrnefndu skálina.Birtist fyrst sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 21. október 2009.

Engin ummæli: