Gott fólk
Eitt af því sem mér hefur tekist að læra í lífinu er að heimurinn er fullur af góðu fólki. Það er sama hvar þig ber niður á jörðinni, alls staðar muntu rekast á got fólk. Þetta rann í fyrsta skipti upp fyrir mér þegar ég dvaldi í 5 vikur í Cambridge í Englandi í sumarskóla. Þá var ég 14 ára og hafði aldrei farið ein til útlanda áður, en þetta var fermingargjöfin mín frá ömmu og afa og reyndist hún mér lærdómsríkari en flest annað sem við kom fermingunni. Í skólanum voru nemendur alls staðar að úr heiminum, sem opnaði alveg nýja vídd fyrir mér, því fram til þessa hafði ég fyrst og fremst umgengist fólk af sama sauðahúsi úr Mosfellsbænum. Úr þeim þrönga veruleika hafði ég ekki gert mér grein fyrir hvað ég ætti margt sameiginlegt með fólki frá framandi slóðum.
Mér er sérstaklega minnisstæð rútuferð til London, þar sem ég sat með félögum mínum Ahmed, múslima frá olíuríkinu Quatar, og Yoav, gyðingi frá Tel Aviv í Ísrael. Við kjöftuðum og hlógum alla leiðina, m.a. að því að þeir ættu nú eiginlega ekki að sitja saman, því tæknilega séð væru þjóðir þeirra óvinir. Þarna lærðist mér í fyrsta skipti að vera þakklát fyrir að eiga enga meðfædda óvini og gladdist líka yfir að geta myndað vinabönd við fólk af svo ólíkum uppruna. Þegar ég kom aftur heim var ég mjög hugsi yfir þessari lífsreynslu og velti því fyrir mér hvort ég hefði eignast vini af því ég var á réttum stað á réttum tíma, eða hvort það væri sama hvert ég hefði farið, alls staðar væri vini að finna. Síðar hef ég sem betur fer orðið fullviss um hið síðarnefnda, því ég hef borið gæfu til að eignast kæra vini í öllum heimsálfum, sem allir hafa kennt mér eitthvað nýtt eða hjálpað mér að sjá hlutina í nýju samhengi.
Nú síðast í sumar náði ég óvæntri tengingu við nýjan vin. Ég var á námskeiði í Þýskalandi og hitti þar sjónvarpsfréttamann frá ríkissjónvarpi Úzbekistan. Ég hafði aldrei áður hitt neinn frá þessum Mið-Asíulöndum og við Bakhrom smullum ekki beinlínis við fyrstu kynni. Við höfðum mjög ólíka nálgun á hlutina og tókum snarpa rimmu. Hann fór óseigjanlega í taugarnar á mér en í hádeginu tókum við samt spjall og þá kom í ljós að við áttum meira sameiginlegt en mig hafði grunað. Við höfðum bæði menntað okkur í málvísindum og bókmenntum og höfðum bæði hug á að sækja samskonar framhaldsnám í öðru fagi. Ekki nóg með það heldur höfðum við bæði gælt í huganum við framhaldsnám í Ástralíu og skoðað sömu námsleiðir í sama háskólanum þar. Eftir þetta töluðum við lengi saman um sameiginlegt áhugamál; fjallgöngur og náttúruna í heimalöndum okkar. Bakhrom frá Úzbekistan varð því til þess að minna mig enn einu sinni á hversu mikið er alls staðar til af skemmtilegu fólki. Tengslin hafa nú rofnað við mörg þeirra sem ég hef kynnst í fjarlægum löndum, en ég veit af þeim þarna úti, hvert í sínum heimshluta, og það lætur mér líða vel. una@mbl.is
Birtist fyrst sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 14. október 2009
Engin ummæli:
Skrifa ummæli