Ferskt loft
Hollensk vinkona mín lýsti því eitt sinn fyrir mér hvað hún væri stolt af því hvað landið hennar hefði lagt af mörkum í mannkynssögunni, og reyndar ekki síður fótboltasögunni, miðað við hvað þjóðin væri nú lítil. Í Hollandi búa rúmlega 16 milljónir manna. Fram til þessa hafði ég ekki litið á Hollendinga sem smáþjóð en með tilliti til grenndar þeirra við risaþjóðirnar Þýskaland, Frakkland og Bretland er kannski skiljanlegt að þeir skynji smæð sína. Ég sá samt á vinkonu minni að mér tókst að koma þessari skynjun hennar á umheiminum úr jafnvægi þegar ég útskýrði fyrir henni nákvæmlega hversu ofboðslega lítið Ísland er. Þeir eru margir sem telja sig vera frá litlu landi án þess að gera sér grein fyrir að svo lítill hópur sem Íslendingar eru geti virkilega talist vera þjóð, enda kannast sjálfsagt flestir Íslendingar við spurningaflóð forviða útlendinga þegar þeir reyna að ná utan um það hvernig svona lítið samfélag geti virkað. Sjálf hef ég vanalega vísað þessu á bug eða slegið því upp í grín, enda hef ég hingað til frekar upplifað það sem fyndið og jafnvel krúttlegt að búa í svona litlu samfélagi. Það er ekki fyrr en núna sem það er fyrst farið að renna upp fyrir mér hvað það þýðir.
Þegar vanhæfni stjórnmálamanna afhjúpaðist og eins þegar rannsóknin á bankahrunin tók að skríða af stað og tengslaflækjan, skyldleikasúpan og bræðraböndin hertust í rembihnút spurðu sig margir hvort það væri ekki eitthvert annað, hæft fólk sem gæti stigið fram og tekið við. Er enginn annar? Enginn annar? Enginn? Svo runnu á mann tvær grímur þegar raunveruleikinn varð ljós. Það er enginn annar.
Það eru bara við og við erum þrjú hundruð þúsund og það er á mörkunum að við getum staðið undir því að reka samfélag. Endurnýjunin og umbyltingin varð líka hálf endaslepp. Síðan eru liðnir nokkrir mánuðir og aftur er farið að tala um hugsanleg stjórnarslit og gömlu stjórnarflokkarnir rjúka upp í vinsældum aftur. Sama gamla tóbakið fyllir vitinn svo ég fæ köfnunartilfinningu. Íslenskt samfélag er kassi með fjórum veggjum sem við hlaupum á til skiptis og ekkert breytist. Völdin skipta um sömu hendurnar aftur og aftur, fram og til baka, og ekkert breytist. Um stund var eins og glitti í útgönguleið í einu horninu og ferska loftið streymdi inn með fyrirheit um eitthvað nýtt en á þröskuldinum skall hurðin aftur svo við stöndum í sömu sporum og áður, innmúruð. Stundum grípur mig viðþolslaus þörf til að brjóta mér leið í gegnum þessa steypu og út úr kassanum, reka þó ekki væri nema bara nefið út fyrir og taka nokkur andköf. Svo næ ég andanum aftur og stilli mig.
Sennilega er rétta leiðin ekki að snúa baki við þessu öllu heldur reyna að losa hnútinn og brjóta niður múrana innan frá
Birtist fyrst sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 4. nóvember 2009.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli