Hvorki sakbitin né sælÉg sakna þess að eiga mér enga sakbitna sælu í sjónvarpinu lengur. Það er bara ekkert sjónvarpsefni sem ég get laumast til að njóta í laumi þrátt fyrir hallæris
legheit. Þegar kemur að sakbitinni sælu er ég sérstaklega veik fyrir hugljúfum fjölskylduþáttum sem gerast í bandarískum smábæ, helst einhvers staðar uppi í fjöllum. Fjölskyldudramað Everwood, sem sagði frá lækninum Andy og börnum hans, var því í sérstöku uppáhaldi, þótt ég hafi kannski ekki séð ástæðu til að flíka því.
Önnur jafnvel enn sakbitnari sæla var kristilega sápuóperan 7th Heaven sem sagði frá hversdagslífi sjö manna prestsfjölskyldu og hundinum þeirra á 10. áratugnum. Gullmoli. Skjáreinn var í miklu uppáhaldi hjá mér þegar sýndir voru bæði 7th Heaven og önnur sakbitin sæla, gömlu seríurnar af Beverly Hills. Báðar þáttaraðir áttu það sameiginlegt að í hverjum þætti var eitthvert siðferðislegt vandamál krufið á uppbyggilegum nótum, t.d. ósannindi, áfengisneysla, kynlíf fyrir giftingu eða prófsvindl og alltaf spennandi að fylgjast með í hvaða búning boðskapurinn var klæddur. Ég veit bara ekkert hvernig ég á að haga mér þegar þetta er ekki að finna á skjánum.
Birtist fyrst sem Ljósvaki í Morgunblaðinu fimmtudaginn 5. nóvember 2009
Engin ummæli:
Skrifa ummæli