Á föstudegi - Argalapper
Þær stundir koma í lífi okkar allra að ást okkar á náunganum víkur tímabundið fyrir óþoli. Auðvitað er farsælast að elska náunga sinn eins og sjálfan sig og með þessa ást og umhyggju að leiðarljósi sé ég mig stundum knúna til að...jah...leiðrétta hegðun náunga míns á uppbyggilegan hátt. Svíar hafa öðrum þjóðum fremur fullkomnað þá list að hnýta pent í nágranna sína á hátt sem á ensku myndi kallast „passive agressive". Svíar eru auðvitað allra víkinga dannaðastir, en það þýðir þó ekki að undir allri jafnaðarmennskunni kraumi ekki innibyrgð bræði. Þegar bræðin brýst út fá Svíarnir kurteislega útrás fyrir hana með því að senda svo kallaða arga lapper á nágranna sinn. Nafnið er lýsandi því þeir eru einmitt það, argir miðar.
Á stigagangi í blokk einni í Stokkhólmi mátti nýlega sjá þennan reiðimiða: „Kæri nágranni, það er mér ráðgáta hvers vegna þú bíður alltaf með að nota höggborinn þar til eftir klukkan 20.05 á kvöldin. Ef þú sérð þig knúinn til að halda þessu áfram fæ ég kannski að banka upp á hjá þér við tækifæri með tveimur albönskum félögum mínum. Þá getum við séð hvort þú ert í stuði til að ræða húsreglurnar. Við heyrumst og sjáumst, þinn granni." Skýrari gætu skilaboðin varla verið og þó er öllum kurteisisreglum fylgt, að mestu leyti. Ergelsisskeyti sem þessi eru svo algeng í Svíaríki að þau eru orðin hálfgert listform sem er m.a. safnað til sýningar á vefsíðunni www.argalappen.se.
Íslendingar eiga það ekki síður til en Svíar að vilja vísa náunga sínum til betri vegar, en ég er hrædd um að þeir hafi ekki náð sömu formfágun og þeir sænsku. Sjálf hef ég um árabil stundað það að senda skilaboð á þá samborgara mína sem misbjóða mér með hegðun sinni, einkum þegar kemur að því að leggja í stæði, eða öllu heldur skilja bílinn eftir hvar og hvernig sem er án tillits til annarra. Ég skal viðurkenna að oft freistar það mín að eitra þessi skilaboð með formælingum áður en ég smeygi þeim undir rúðuþurrku þess tillitslausa. Mér hefur tekist að stilla mig en það dugar þó ekki til, því stundum grípa aðrir og óheflaðri siðapredikarar fram fyrir hendurnar á mér.
Það gerðist til dæmis einu sinni þegar ég reyndi að ala upp sportbílaeiganda sem lagði fína bílnum sínum þvert á allar bílastæðalínur í Smáralindinni. Ég skildi eftir kurteislega kveðju á framrúðunni: „Kæri bílstjóri, vinsamlegast lærðu að leggja, kær kveðja." Ég var hins vegar varla sest aftur inn í eigin bíl þegar tvær miðaldra konur gengu fram hjá sportbílnum. Þær stöldruðu við reiðimiðann minn, ráku upp miklar hláturrokur en svo dró önnur þeirra upp penna og krotaði eitthvað. Svo litu þær flóttalega í kringum sig og stukku burt. Ég læddist auðvitað upp að sportaranum aftur og sá að aftan við penu skilaboðin mín höfðu þær bætt risastórum stöfum: „FÍFLIÐ ÞITT!!" Hvort sem sænska leiðin eða sú íslenska er valin mæli ég með notkun reiðimiða til upprætingar hinna ýmsu samfélagsmeina. una@mbl.is
Birtist sem föstudagspistill í Daglegu Lífi Morgunblaðsins 27. nóv. 2009.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli