Tungumálið okkar
Eitt vinsælasta umræðuefnið á degi íslenskrar tungu er spilling tungunnar tæru í munni unga fólksins. Miðað við það sem ég heyrði í umræðum á þessum mæta hátíðisdegi í ár geta yngsta kynslóðin og sú elsta víst ekki lengur átt samskipti í fermingarveislum því þær skilja ekki hvor aðra. Margir hafa áhyggjur af framtíð íslenskunnar í meðförum unga fólksins og er það m.a. rökstutt þannig að unglingar geti ekki lengur lesið bækur Halldórs Laxness því þeir skilji hvorki stafsetninguna né orðaforðann og gefist því upp.
Fyrir nokkrum árum var safn verka Halldórs gefið út með hefðbundinni stafsetningu, m.a. í tilraun til að höfða til ungs fólks. Bækur nóbelsskáldsins virðast stundum vera notaðar sem mælikvarði á vitsmuni fólks og andlega getu en ég sé ekki ástæðu til að hafa áhyggjur þótt Atómstöðin eða Salka Valka séu ekki efstar á óskalista allra unglinga. Í fyrsta lagi er það rangtúlkun að sérviskuleg stafsetning sé unglingunum fyrirstaða. Ég sé ekki betur en þau hafi gott auga fyrir og eigi auðvelt með að lesa furðulegustu stafsetningu, styttingar og afbakanir miðað við þeirra eigið ritmál á netinu, það vantar ekki.
Á hinn bóginn mættu þessir áhyggjufullu unnendur íslenskunnar spyrja sig hvort það sé sanngjarnt að ætlast til þess af unglingum í dag að þeir samsami sig stéttabaráttu og pólitík fjórða áratugar síðustu aldar þegar þeir eiga í mesta basli með að skilja sjálfa sig. Sjálf var ég mikill lestrarhestur sem krakki en þegar á mig fóru að vaxa brjóst fékk ég að heyra að það væri nú synd, fyrst ég væri svona dugleg að lesa, að ég læsi ekki alvörubækur. Ekki þessar barnabækur alltaf hreint. Ég tók mig því til 13 ára og þrælaði mér í gegnum Sölku Völku, en allt þetta tal um bolsévika fór fyrir ofan garð og neðan hjá mér.
Ég ákvað því að ég væri ekki alveg tilbúin í þetta ennþá og sem betur fer segi ég, því það þýddi að ég átti Sjálfstætt fólk til góða seinna þegar ég hafði forsendur til að njóta hennar og leyfa Halldóri að snerta alla mina tilfinningastrengi. Ég veit það hins vegar fyrir víst að margir jafnaldrar mínir sem voru látnir lesa Halldór í grunnskóla eru enn sannfærðir um að bækur hans séu hundleiðinlegar, þannig lifa þær í minningu þeirra sem ekki hafa lagt í þær aftur.
Lestur er stór hluti þess að rækta með sér málvitund og orðaforða en ef ætlunin er að hvetja börn og unglinga til lestrar er vænlegra til árangurs að beina að þeim lesefni við þeirra hæfi en ekki ætla þeim um of. Þótt heimsbókmenntirnar höfði ekki til þeirra við fermingu er ekki þar með sagt að þau njóti þeirra ekki síðar ef þeim lærist á annað borð að njóta þess að lesa.
Og hvað varðar meðferð þeirra á tungumálinu okkar er sjálfsagt að benda þeim á það sem réttara þykir en ástæðulaust að hafa áhyggjur þótt þau kryddi netsamtöl með furðulegum ritstíl og afbökuðum orðaforða, enda er það auðvitað alkunna að ekkert orð er skrípi ef það stendur á réttum stað. una@mbl.isBirtist fyrst í Morgunblaðinu sem pistill miðvikudaginn 18. nóvember.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli