„Ég fæ alltaf svo skrýtna mynd í hugann þegar ég heyri þennan sálm,“ sagði amma og staldraði við um stund. Við vorum í eldhúsinu heima hjá mér í okkar árlega smákökubakstri, þegar amma hjálpar mér að fá jólalykt í húsið, en undir hljómaði sálmurinn Faðir andanna eftir Matthías Jochumsson. Amma sagði mér frá því hvernig hún man fyrst eftir þessum sálmi. Það hefur sennilega verið árið 1938, því hún var um 10 ára gömul, heima hjá sér að Kletti í Kollafirði.
Á fjöru fellur mikið út úr Kollafirðinum og þennan dag, um hásumar, var amma eitthvað að bardúsa úti þegar hún heyrði mikinn söng bergmála inn allan fjörðinn. Þetta reyndist vera pósturinn Gunnar, sem var einfættur því hann hafði fengið berkla í annan fótinn sem þurfti að taka af við hné. Pósturinn einfætti kom ríðandi á hesti sínum eftir leirunum og söng hástöfum um föður andanna, frelsi landanna og ljósið í lýðanna stríði svo glumdi á milli fjallanna. Seinna man amma reyndar líka vel eftir þessum sálmi því hann var víst alltaf spilaður í lok útvarpsmessunnar á meðan heimsstyrjöldinni stóð, sem hugvekja, enda á textinn vel við andrúmsloftið sem þá hefur án efa verið ríkjandi á Íslandi og víðar.
Faðir ljósanna
lífsins rósanna
lýstu landinu kalda.
Vertu oss fáum
fátækum smáum
líkn í lífsstríði alda.
lífsins rósanna
lýstu landinu kalda.
Vertu oss fáum
fátækum smáum
líkn í lífsstríði alda.
Þessi mynd af einfætta póstinum Gunnari á hestinum sínum fyrir 70 árum kemur samt enn alltaf í hugann á henni ömmu þegar hún heyrir sálminn sunginn og mér raunar líka því ég sé hann ljóslifandi fyrir mér eins og amma lýsti honum. Mér er reyndar þessi heimur hennar ömmu, sem eitt sinn var veruleikinn á Íslandi en er ekki til lengur, oft mjög hugleikinn og ekki síst undanfarið ár. Í gær sátum við amma og sötruðum te saman og enn varð henni hugsað til hljóðburðarins inn Kollafjörðinn, því hún man enn hversu spennt þau systkinin urðu þegar díselskellirnir heyrðust í bátnum sem færðu þeim vörur úr kaupfélaginu. Það gerðist reyndar ekki oft, því ólíkt neysluháttum okkar ömmu beggja í dag var bara farið tvisvar sinnum á ári í verslun, að hausti og að vori. Enda voru allar samgöngur á sjó og mikil fyirrhöfn að selflytja vörur inn og út af reikningi hjá Kaupfélaginu í Flatey á Breiðafirði heim að bænum.
Ég held að amma hafi ekki endilega talið að það væri nein sérstök kreppa á þessum árum, svona var bara lífið. Í dag upplifum við kreppu, sem felst fyrst og fremst í því að fara frá því að búa við eina mestu velsæld og ríkidæmi í heiminum yfir í að hafa það aðeins verra. Ég held að við lifum það af. una@mbl.is
Birtist fyrst sem Pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 2. desember
Engin ummæli:
Skrifa ummæli