Bráðum er árið 2009 að baki og vilja þá margir meina að fyrsti áratugur nýs árþúsunds sé liðinn. Minnug hinna miklu rifrilda sem urðu í árslok 1999 og enduðu með því að flestir sættust á að aldamótin væru sannarlega ekki fyrr en í lok ársins 2000, þegar 2000 árum væri endanlega lokið, þá á ég erfitt með að koma því heim og saman að áratugurinn sé fylltur nú 9 árum síðar. En gott og vel, þetta er smávægilegt skilgreiningaratriði sem fær að víkja fyrir þörfinni sem við höfum núna á því að gera sjálf okkur upp og skilgreina tímabil sem óhjákvæmilega er lokið með hvelli, óháð öllum dagatölum. Árið 2000 var spenna í loftinu. Þetta voru einhvern veginn stærri tímamót en áður. Nýtt árþúsund var hafið og framtíðin var mætt á staðinn. 20. öldin hefur stundum verið kölluð öld öfganna en ef marka má fyrstu ár þeirrar 21. er öfgunum hvergi nærri lokið.
Ég man eftir að hafa stundum hugsað með mér í einhverjum hégóma þegar ég var barn að það hefði verið skemmtilegra að vera uppi á öðrum tímum þegar stóru atburðirnir í sögunni voru að gerast; umbyltingar, nýir straumar og dramatískir atburðir. Mig langaði til að fá líka að upplifa atburði sem greyptust svo inn í vitund fólks að það myndi alla ævi hvar það var statt þegar það frétti af þeim, en grunaði auðvitað ekki um hvað ég var í raun að biðja. 21. öldin var varla hafin þegar einn af dramatískustu atburðum mannkynssögunnar hingað til átti sér stað: árásin á Bandaríkin 11. september. Aldrei mun ég gleyma því þegar ég sá fólk stökkva út úr brennandi háhýsi í beinni útsendingu, en ég vildi gjarnan að það hefði aldrei gerst.
Einhvern tíma heyrði ég að spurning 21. aldarinnar væri „Hvar ertu?" Þar til fyrir stuttu var aldrei nokkurn tíma ástæða til að spyrja þessarar spurningar nema í feluleik. Með komu farsímanna og netsins er hinsvegar hægt að spjalla á rauntíma yfir heimshöfin án þess að hafa hugmynd um hvar viðmælandinn er staddur. „Hvar ertu?" spyr umhyggjusöm móðir á Íslandi. „Ég er hérna við landamæri Laos og Búrma," svarar frumburðurinn um hæl. Heimurinn hefur minnkað enn meira þennan áratug og upplýsingasamfélagið hefur blómstrað með hjálp tækninnar. „Penninn" er orðinn rafrænt vopn í höndum mun fleiri og fjölmiðlun orðin fjölmennari en nokkru sinni. Á hinn bóginn hefur eftirlitssamfélagið tvíeflst með hjálp þessarar sömu tækni og vegið hefur verið að persónufrelsinu vegna óljósrar en alltumlykjandi hryðjuverkaógnar. Þegar framtíðin átti að byrja um aldamótin byrjaði líka þenslan, neyslan, uppbyggingin og einkavæðingin. Það er ótrúlegt að hugsa til þess hvað þetta hefur í raun verið stutt tímabil og atburðarásin hröð, miðað við hvað afleiðingarnar eru afdrifaríkar, ekki síst hér á Íslandi. Fyrsti áratugur 21. aldarinnar hefur með sanni verið öfgafullur, hvort sem honum er lokið enn eða ekki og svo er að sjá hvernig okkur farnast á þeim næsta. una@mbl.is
Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 30. desember 2009.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli