Landið faðminn breiðir
Svartir janúardagar eru þungir á sálinni. Það er skrýtið hvaða áhrif þetta blessaða skammdegi getur haft á annars léttlyndasta fólk. Sjálfri líður mér eins og vekjaraklukkan og alheimurinn hafi tekið höndum saman í stórfelldu samsæri gegn mér þegar hringingin rekur mig á fætur á morgnana. Janúar er erfiðasti mánuður ársins að þessu leyti því þrátt fyrir að daginn sé tæknilega séð tekið að lengja verður myrkrið allt í einu svo svart þegar jólaljósin slokkna og næsta tilhlökkunarefni er í sex mánaða fjarlægð: sumarið.
Ó elsku íslenska sumar, hvað ég þrái þig heitt. Eftir að gjaldeyrishöft og gengishrun hertóku Ísland og færðu það með einhverjum hætti mun norðar á bóginn og fjær umheiminum en það hafði nokkurn tíma áður verið hefur mér oft orðið hugsað til þess hvað ég er heppin að það skuli þó að minnsta kosti vera hér sem ég sit föst í gjaldeyrishöftunum. Hér þar sem ferðaþráin hefur þrátt fyrir allt næg tækifæri til að fá útrás þótt ekki sé það utan landsteinanna. Ekki síst get ég yljað mér við þessa hugsun nú í verstu skammdegisþyngslunum þegar tilhlökkunin til sumarsins heldur í manni lífinu.
Ég get ekki gert upp við mig hvert mig langar mest til að fara þetta árið; á Hornstrandir eða Austfirði? Í Þjórsárver eða Lónsöræfi? Núpsstaðaskógur eða Langisjór, Herðubreiðarlindir eða Tröllaskagi? Eða að Fjallabaki, þar sem ég get endalaust farið og alltaf fundist ég vera að sjá heiminn í fyrsta skipti enda ber landslagið því vitni að skaparinn hafi verið í trylltu skapi þegar hann galdraði það fram. Ég veit að ég kemst ekki yfir allt saman þetta sumarið en get huggað mig við að eiga nóg framundan næstu sumur á eftir.
Það má vera að það sé klisja, en staðreyndin er sú að kreppan er aldrei fjarlægari en á fjöllum. Hvernig er líka hægt að hugsa um peninga eða skuldir þegar öræfin blasa við og skynfærin bregðast þér: þá er ekki fullnægjandi að sjá fegurðina, þig langar líka til þess að synda í fegurðinni, gleypa hana, faðma fegurðina, syngja hana, vera hluti af henni. Ég hef alltaf fundið til með þeim Íslendingum sem njóta ekki náttúrunnar hér því hún er það besta sem við eigum og án hennar væri þetta harla lítt spennandi sker að búa á. Reykjavík er ekki sérstaklega skemmtileg borg eða falleg. Þær eru margar borgirnar í öðrum löndum sem skáka Reykjavík í þeim efnum enda væri ég sennilega löngu flutt héðan burt ef borgarlífið væri það eina sem þetta land hefði upp á að bjóða, hvað þá í þessu blessaða skammdegisslabbi.
Það er svolítið erfitt að vera Íslendingur þessi dægrin, þegar heiðarleiki okkar er umdeildur á heimsvísu, við erum slypp, snauð og hrakin og svo skammdegisþunglynd í ofanálag. Það er aðeins ein leið til að vinna sig upp úr svoleiðis ástandi og það er að hafa eitthvert markmið til að stefna að og hlakka til. Til skamms tíma litið er það sumarið, til lengri tíma bjartari tíð. una@mbl.is
Birtist í Morgunblaðinu sem pistill miðvikudaginn 13. janúar 2010.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli