Jól með blæbrigðum
Nú er Þorláksmessa og jólin alveg að koma, en veislan er reyndar löngu byrjuð með jólahlaðborðum, möndluboði, smákökubakstri og glöggi á aðventunni. Það koma alltaf jól þótt annað bregðist og alltaf eru þau eins, með örlitlum blæbrigðum. Í vikunni las ég að kaupmáttur launa hafi ekki verið lægri síðan í árslok 2002. Ég reyndi því að rifja upp hver lífsgæði mín voru árið 2002. Það tók reyndar ekki langan tíma, ég fletti upp í dagbókinni minni frá 5. janúar 2003 þar sem ég hafði skrifað: „Árið 2002 var mér gott á flestan hátt og eflaust mun ég minnast þess með söknuði á harðari tímum." Kaupmátturinn virðist því ekki hafa háð mér verulega.
Athyglisverðara finnst mér reyndar að ég skuli hafa búist við því árið 2002 að þurfa síðar að takast á við þrengri kost, því fáeinum misserum seinna var ég orðin svo góðærisglöð að mér flaug ekki lengur í hug að það gæti nokkru sinni harnað í ári. Þjóðhagsspá gerir ráð fyrir að á næsta ári förum við 10 ár aftur í tímann, kaupmáttur verði þá svipaður og árin 1999- 2000. Seint mun ég fagna rýrnandi kaupmætti, en til samanburðar er þó ágætt að hafa í huga að frá 1990 til 2007 jókst kaupmáttur um 71%. Meðalmaðurinn ætti því að geta bitið á jaxlinn, komist í gegnum þessa niðursveiflu og jafnvel séð af einhverju til þeirra sem minna mega sín.
Svo ég tali fyrir sjálfa mig þá man ég allavega ekki betur en að jólin hafi komið á mínu heimili bæði árin 1999 og 2002, jafnvel fyrr líka, og alltaf verið góð, þótt gjafahrúgan undir trénu hafi stundum verið rýrari en áður og tréð misglæsilegt. Ég minnist reyndar eins jólatrés með sérstakri hlýju, það var einhvern tímann um miðjan 10. áratuginn þegar það voru hálfgerð kreppujól hjá fjölskyldunni. Á Þorláksmessu voru mamma og pabbi á síðustu metrunum að redda því sem redda þurfti og undir miðnætti kom jólatréð í hús. Það var ekki mikið fyrir augað, greyið, enda hafði það hímt úti í horni á einhverjum gámi og fengist á afsláttarverði rétt fyrir lokun þegar sýnt þótti að enginn vildi sjá það. Við tók það verkefni að lappa upp á skrípið svo það væri húsum hæft, en vandamálið var að það var ekki fallega samhverft eins og jólatré „eiga" að vera heldur vantaði nánast alveg aðra hliðina á það. Með hjálp sagar, líms, borvélar og snærisspotta tókst okkur hinsvegar að jafna dreifingu trjágreina og útkoman var snoturt lítið tré með risastóran karakter, sannkallað stofustáss.
Á morgun koma svo jólin enn einu sinni og ég er þegar dottin í ofneysluna. Það er ekki laust við að maður fyllist örlitlu samsviskubiti yfir því núna, vitandi að jólin eru magrari hjá mörgum og vitandi að peningunum væri eflaust betur varið í sparnað en konfekt. En eftir það sem á undan er gengið eigum við skilið að vera svolítið góð við okkur sjálf og hvort annað á þessum dimma árstíma. Þeir sem þurfa frekari réttlætingu geta hugsað sem svo að það skiptir í raun ekki máli hvað þú borðar á milli jóla á nýárs, heldur á milli nýárs og jóla. una@mbl.isBirtist fyrst sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 23. desember.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli