Tímaferðalög eru einhver mest heillandi vísindaskáldskapur sem til er og uppspretta endalausra heilabrota. Þess vegna eru ormagöngin svo heillandi í Star Trek og þess vegna hef ég ákveðið að fylgjast með þáttunum Flash Forward á RÚV. Ég á mér samt uppáhaldsfantasíuþætti sem fjalla um tímaflakk, Qantum Leap sem voru framleiddir á árunum 1989-1993 og sýndir hér á sínum tíma. Þar segir frá vísindamanninum Sam Beckett sem festist á stöðugu tímaflakki vegna tilraunar sem fer úrskeiðis. Sam reiðir sig á upplýsingar frá tölvuheilanum Ziggy, sem á þeim tíma hefur þótt framúrstefnuleg upplýsingaveita en við vitum í dag að er internetið. Stundum liggja leiðir hans og sögufrægra persóna og atburða saman, t.d. rekst hann á barnungan Michael Jackson og æfir með honum nýstárleg dansspor. Í einum þætti kemur hann lögreglu fyrir tilviljun á sporið um Watergate-hneykslið. Hann hjálpar ungum Buddy Holly að semja lagið Peggy Sue og ræðir um lífið á þjóðveginum við uppreisnargjarna ungmennið Jack Kerouac.
Auðvitað eru margar gloppur í plottinu, enda eru tímaferðalög svo dásamlega flókin að það er endalaust hægt að velta þeim fyrir sér.
Birtist sem Ljósvakapistill í Morgunblaðinu fimmtudaginn 17. desember 2009.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli