mánudagur, janúar 25, 2010

Bækur lesnar á árinu 2009

Ég hef alltaf ætlað að halda skrá jafnóðum skrá yfir þær bækur sem ég les og umsagnir um hvernig mér hafi líkað þær. Öðru hvoru hefur mér tekist að gera þetta, byrjaði að skrifa þetta inn í dagbók fyrir nokkrum árum, en mér hefur ekki haldist vel á því svo nýja tilraunin er að gera þetta á blogginu og sjá hvort ég geti betur haldið utan um það hér.
Hér er listinn yfir bækur sem ég man eftir að hafa lesið á árinu 2009. Þetta er ekki gert jafnóðum og því vantar eflaust eitthvað inn í sem ég man ekki eftir. Umsagnir hef ég heldur ekki skrifað en bæti þeim kannski inn í síðar.
Það er gert til hægðarauka vegna þess að ég veit það af reynslunni að þótt bestu bækurnar lifi alltaf með manni þá kemur það fyrir að nokkrum árum síðar man ég ekki hvort ég las ákveðna bók eða ekki, hvort ég kláraði hana eða gafst upp á miðri leið eða hvort mér fannst hún alveg frábær eða bara sæmileg.

1. Myrká, Arnaldur Indriðason
-Ágæt.
2. Vetrarborgin, Arnaldur Indriðason
-Ásamt Sonum duftsins sú sísta af bókum Arnalds sem ég hef lesið
3. Harðskafi, Arnaldur Indriðason
-Nokkuð góð, ég var sæmilega spennt yfir henni og fann til samúðar með persónum.
4. Dauði trúðsins, Árni Þórarinsson
-Nokkuð skemmtileg, forvitnileg flétta og viðkunnanlegar týpur. Ég hafði sérsaklega gaman af því að lesa lýsingar af blaðinu fyrir sunnan þar sem ég sá minn eigin vinnustað ljóslifandi fyrir mér.
5. Híbýli vindanna, Böðvar Guðmundsson
Frábær, átakanleg, falleg, fyndin, fróðleg, ógleymanleg. Skyldulesning!
6. Lífsins tré, Böðvar Guðmundsson
Ögn síðri en Híbýli vindanna en samt líka frábær.
7. Enn er dagur, Böðvar Guðmundsson
Nýjasta bókin hans Böðvars og ég var mjög ánægð með hana. Þetta er söguleg skáldsaga eins og hinar tvær og Böðvar gerir sögusviðinu mjög góð skil. Aðalpersónan er fremur atkvæðalítil en utanaðkomandi aðstæður og átök í heiminum gera það að verkum að líf hans verður ótrúlega dramatískt.
8. Þar sem djöflaeyjan rís, Einar Kárason
9. Ofsi, Einar Kárason
Frábær, Einar er snillingur og gefur ótrúlega skemmtilega sýn á Sturlungaöldina.
10. Steiktir, grænir tómatar, Fannie Flagg
11. Prinsessan á Bessastöðum, Gerður Kristný
12. Íslandsförin, Guðmundur Andri Thorsson
Nokkuð góð bara, gaman að ferðast í huganum um Ísland þessa tíma og sjá það með augum aðkomumans. Fínasta flétta líka.
13. Orðspor, Gunnar Hersveinn
14. Fundið fé, Jens Lepidus
Góð spennusaga og gefur satt að segja fína innsýn inn í átakalínur skandinavískra undirheima. Gefur manni hugmynd um hvers gæti verið að vænta í íslenska glæpakúltúrnum.
15. Krosstré, Jón Hallur Stefánsson
Þokkalegur þriller en frekar óminnisstæður.
16. Sumarljós og svo kemur nóttin, Jón Kalman Stefánsson
17. Himnaríki og helvíti, Jón Kalman Stefánsson
18. Snarkið í stjörnunum, Jón Kalman Stefánsson
-Ágæt, ljóðræn eins og falleg eins og skrif Jóns eru jafnan en hann kemst ekki á sama flugið og í seinni bókum sínum.
19. Þúsund bjartar sólir, Khaleid Hosseini
20. Hálmstráin, Magnús Sigurðsson
21. Heim til míns hjarta, Oddný Eir Ævarsdóttir
22. Minnisbók, Sigurður Pálsson
-Alveg frábær. Greip hana til að lesa eitthvað yfir kakóbolla á Súfistanum, endaði á að kaupa hana því mig langaði svo að lesa áfram. Fékk mig til að skella upp úr og stemningslýsingarnar frá París á 8. áratugnum eru heillandi.
23. Veröld sem var, Stefan Zweig
-Varð samstundis ein af mínum allra uppáhalds bókum. Ég tók hana á bókasafninu en stóð mig sífellt að því að vilja undirstrika eitthvað í henni. Þessi bók er full af visku og speki og hún setur lífið í samhengi við söguna. Maður þekkir sögulegar staðreyndir heimsstyrjaldanna en þarna lýsir Stefan Zweig því hvernig tíðarandinn, menningin og hugsun fólks breyttist. Nokkrum mánuðum eftir að ég skilaði henni á bókasafnið var hún endurútgefin í fyrsta skipti í mörg ár og ég hljóp út og keypti hana, þetta er bók sem mig langar að geta gripið til.
24. Konur, Steinar Bragi
25. Twilight, Stephenie Meyer
26. Karlar sem hata konur, Stieg Larsson
27. Stúlkan sem lék sér að eldinum, Stieg Larsson
28. Nafn rósarinnar, Umberto Ego
29. Aska, Yrsa Sigurðardóttir

Engin ummæli: