Nú er talað um að byggja upp nýtt og betra samfélag á Íslandi og uppræta meinin sem urðu því gamla að falli. Það er hollt að taka sjálfan sig stundum rækilega í gegn en það þarf líka að fara gætilega í sakirnar. Hér hefur mörgu verið snúið á höfuðið á stuttum tíma og þótt sumt sé til góðs blómstra öfgarnar ennþá, en með öfugum formerkjum þó. Fyrir stuttu var það mörgum mikið keppikefli að eiga pening, en þó umfram allt sýna öllum öðrum að þeir ættu pening. Nú er það akkúrat öfugt, sá sem ekki er stórskuldugur hefur sig hægan til að vekja ekki tortryggni og þeim sem með einhverjum undarlegum hætti tekst að eiga sparifé á bankareikningi er vænlegast að læðast með veggjum. Það er mikil áhætta fólgin í því þessa dagana að kaupa sér flugmiða án þess að geta útskýrt mál sitt. „Ég fékk ókeypis gistingu hjá ættingjum" eða „ég lifði bara á vatni og brauði og fór aldrei út að borða" eru afsakanir sem nauðsynlegt er að hafa á reiðum höndum spyrjist það út að maður hafi farið til útlanda í frí. Guð forði þeim sem á meira en aðrir og leyfir sér að njóta þess.
Síðasta haust gekk ég fram hjá glæpavettvangi í Stokkhólmi, þar sem peningaflutningabíll var rændur. Sænskur kunningi minn fræddi mig um að mikið væri um svona rán í Svíþjóð og kannski ekki skrýtið því „fólk samþykkir frekar að þú verðir ríkur með því að ræna peningaflutningabíl en með því að vinna þér peninginn inn sjálfur". Kannski eru þetta ýkjur, en síðar í sömu Svíþjóðarheimsókn heyrði ég samt sænskan embættismann tala á svipuðum nótum. „Þú uppskerð meiri virðingu ef þú færð fyrsta vinning í lottó en ef þú vinnur þig áfram til ríkidæmis," sagði hann.
Hvort sem þetta eru ýkjur eða ekki hef ég haft það óþægilega á tilfinningunni að Íslendingar séu farnir að feta æ meira í fótspor sænsku stereótýpunnar að þessu leyti, að halda að allir þeir sem eiga pening hafi eitthvað óhreint á samviskunni. Enn er til fólk á Íslandi sem er ríkt en á þessu furða sumir sig eins og það sé eitthvað slæmt að við séum þó ekki öll föst í fátæktargildrunni. Nágrannagæslan fer vaxandi því við gætum þess vandlega að enginn komist upp með að stækka við sig, fara til útlanda eða kaupa sér nýjan bíl án þess að almannarómur veki athygli á því að þessir peningar geti varla verið fengnir með heiðarlegum hætti. Rætnar raddir fljúga af stað um leið og peningalyktin finnst og dómurinn fellur: Auðmaður!
Á einhverjum tímapunkti hættum við að eiga milljónamæringa og fórum að eiga auðmenn. Það var um svipað leyti og menn fóru að hafa milljarða á milli handanna í stað milljóna. Í dag eru fáir eftir sem eiga milljarða en nú virðist þurfa miklu minna til að vera stimplaður auðmaður, bara svo lengi sem þú átt meira en hinn skuldugi meðalmaður. Og eitt er víst, þú átt það alveg örugglega ekki skilið. una@mbl.is
Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 27.janúar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli