miðvikudagur, febrúar 24, 2010

Með stjörnur í augum

Ég er svo heppin að vera umkringd útlendingum þar sem ég bý, því beggja vegna við heimili mitt eru hótel sem á veturna eru einnig nýtt sem íbúðir fyrir erlenda háskólastúdenta. Í nánd við fólk sem er á ferðalagi er alltaf einhver skemmtileg spenna í andrúmsloftinu sem einkennist af forvitni, áhuga fyrir umhverfinu og hreinni lífsgleði.

Utan við heimili mitt rekst ég daglega á hóp spenntra útlendinga sem stara opinmynntir á risastóra fjallajeppann sem er kominn að sækja þá og flytja þá upp á fjöll. Mér finnst alltaf gaman að ganga hjá og skynja spenninginn í fasi þeirra og eftirvæntinguna eftir að upplifa eitthvað nýtt. Það gleður mig að vera á hverjum degi umkringd fólki sem finnst mitt nánasta umhverfi spennandi og þess virði að taka myndir af. Þannig verður það aldrei hversdagsleikanum að bráð í mínum augum heldur.

Stundum sé ég túrista taka myndir af furðulegustu hlutum sem mér hefðu aldrei dottið í hug að líta tvisvar á, en það fær mig til að staldra við og minnir mig á að ég hef sjálf fengið skrýtnar augngotur frá heimamönnum í fjarlægum löndum þar sem ég hef gleymt mér við að taka myndir af fyndnum skiltum, skrýtnum farartækjum og fallegum trjám. Oft er sagt að gestsaugað sé glöggt og það upplifi ég reglulega í götunni minni. Um daginn var ég t.d. að koma úr bíó með vinkonum mínum þegar við tókum eftir trylltum norðurljósadansi á himninum. Það er óvenjulegt að sjá svo skýr og falleg norðurljós í miðri mengun borgarljósanna. Ég yppti samt sem áður öxlum og dreif mig heim að sofa.

Í götunni minni gekk ég hinsvegar í flasið á hóp erlendra stúdenta sem stóð á náttbuxunum í dúnúlpum og störðu upp í himininn með myndavélarnar á lofti. Á svölum hótelíbúðanna fyrir ofan húsið mitt stóð líka hópur útlendinga sem kæfði aðdáunaróp yfir hverju dansspori norðurljósanna. Ég hálfskammaðist mín að vera svona skeytingarlaus um það sem öllu þessu fólki fannst greinilega stórkostleg sjón, svo ég gekk inn á nærliggjandi róló og horfði á norðurljósin eins og ég væri að sjá þau í fyrsta skipti.

Hugurinn hvarflaði aftur til erfiðs ferðalags í næturrútu í Kína. Þar lá ég klukkutimum saman í loftlausu rými á svo þröngu fleti að liggjandi á bakinu gat ég ekki haft handleggina niður með síðunum. Ég hugsaði með mér að þessi nótt virtist ætla að verða endalaus þegar ég klöngraðist út á miðri leið til að aðstoða ferðafélaga minn sem var með magakveisu í vegkantinum. Þá varð mér það á að líta upp til stjörnubjartasta himins ævi minnar yfir kínverskri hásléttu og missti andann um stund.

Sömu hughrifum hef ég fundið fyrir í botni Hjaltadals þar sem myrkrið verður ansi svart, undir Jarlhettum, á Þingvöllum og stjörnubjartri Mosfellsheiðinni og nú síðast heima í götunni minni. Það getur þurft augu gestsins til að leiða manni í ljós að oft er nóg að líta aðeins upp til að heimurinn skipti um svip. una@mbl.is

Birtist í Morgunblaðinu sem pistill miðvikudaginn 24. febrúar 2010.

Engin ummæli: