Ég get ekki alveg sett fingurinn á hvenær það gerðist, en á einhverjum tímapunkti hætti ég að mestu að hafa metnað fyrir því að horfa á þungar bíómyndir og fór að sækja af meiri krafti í hinar svokölluðu stelpumyndir. Þegar ég fer út á leigu (ég geri mér grein fyrir að þetta er úrelt athöfn í huga margra en ég hef ekki tileinkað mér niðurhalið ennþá) staldra ég lengi við fyrir framan hilluna með erlendum og indí myndum og reyni að grafa upp metnaðinn innra með mér. Svo neyðist ég til að játa mig sigraða fyrir sterkari hvötum og sný mér að stelpumyndunum.
Góðar stelpumyndir eiga það yfirleitt sammerkt að fjalla um ástina og samskipti fólks (kynjanna, vinkvenna, mæðgna, systra) á fyndinn og hjartnæman hátt. Þær bestu fá mig til að hlæja og þegar þeim er lokið líður mér vel og ég hugsa um hvað ég er heppin að eiga góðar vinkonur og fólk sem mér þykir vænt um. Því miður er það þó svo að fæstar stelpumyndir kalla fram þessar tilfinningar. Leitin að hinni fullkomnu stelpumynd er nefnilega endalaus þrautaganga í gegnum rusl og innantómt tilfinningaklám sem er framleitt með gróðavonina eina að leiðarljósi.
Tvö nýleg dæmi um þetta eru Hollywood-myndirnar He's just not that into you, sem kom út í fyrra, og Valentine's Day, sem var frumsýnd um daginn. Í báðum tilfellum fór ég í bíó vongóð um að eiga góða bíóupplifun í vændum og að ég kæmi út svífandi hamingjusöm á vængjum ástarinnar. Í báðum tilfellum fór ég hins vegar út af myndunum vonsvikin og enn jafnhungruð í seðjandi stelpumynd. Það vantar bara einhvern neista í þessar myndir, það vantar einlægnina, tilfinninguna. Þær eru bara umbúðir, formúla og stóð af fallegum leikurum. Sem betur fer eru þó til gimsteinar í stelpumyndasorpinu sem hægt er að halla sér að og þannig vill til að áðurnefndar kvikmyndir eru báðar aum tilraun Hollywood til að endurgera eina bestu stelpumynd allra tíma, sem er hin erkibreska og yndislega Love Actually. Bretarnir kunna þetta auðvitað og nægir að nefna Bridget Jones (fyrri myndin, í þeirri seinni er Bridget orðin allt of vitlaus) og Fjögur brúðkaup og jarðarför sem dæmi auk u.þ.b. allra mynda sem byggjast á sögum Jane Austen.
Í gegnum tíðina hafa líka fjölmargar fínar stelpumyndir komið frá draumaverksmiðjunni Hollywood. Í uppáhaldi hjá mér eru t.d. unglingamyndirnar Clueless, 10 Things I hate about you og Mean Girls (eftir snillinginn Tinu Fey). Svo má auðvitað nefna Sex&the City, ofurástardramað Notebook (fyrsta myndin sem braut múrinn og neyddi mig til að grenja með vinkonum mínum) og eldri myndir eins og Wedding Singer og Now&Then. En þetta er vandamálið. Vegna þess að ég veit að öðru hvoru mun ég hitta á góða stelpumynd sem lætur mér líða vel held ég áfram að plægja gegnum draslið. Sumar draslstelpumyndir hafa vissulega svolítið skemmtanagildi en vantar bara þennan neista sem fær mig til að verða mjúk og væmin að innan og brosa allan hringinn. una@mbl.is
Birtist sem föstudagspistill í Daglegu lífi Morgunblaðsins 26. febrúar 2010
Engin ummæli:
Skrifa ummæli