föstudagur, febrúar 19, 2010

Víkverji 29. september 2008

Fyrir tilviljun rakst ég á þennan Víkverja í gagnasafninu í vinnunni í dag. Ég skrifaði hann daginn eftir að Glitnir var þjóðnýttur. Ég gerði mér ekki almennilega grein fyrir því þá að þetta væri upphafið að kreppunni miklu á Íslandi, en það gleður mig að sjá það núna að hjá mér var þetta skemmtilegur dagur. Ég var búin að steingleyma því að sama kvöld skellti ég mér í bíó:

Víkverji skrifar

Mamma Mia, söngvamyndin sem skrifuð er í kringum ABBA-lögin sígildu, hefur verið stærsta menningarfyrirbrigðið á Íslandi síðustu þrjá mánuði. Víkverji hafði frá upphafi efast um að þessi mynd gæti virkilega staðið undir öllu þessu „hæpi“ og látið það mæta afgangi að sjá hana í bíó. Þangað til á mánudaginn. Ætlunin var að fá einhverja með sér á nýjustu mynd Coen-bræðra, Burn After Reading, en þegar maki Víkverja og nánustu vinir reyndust allir vera uppteknir, líklega við að naga neglurnar yfir sparifénu sínu eftir ótíðindi dagsins, varð niðurstaðan að Víkverji færi einn í bíó.
X X X
Þegar í miðasöluna var komið kom það Víkverja á óvart að sjá að Mamma Mia var enn auglýst í sýningu. Gat það verið eftir allan þennan tíma? Allt í einu varð það heillandi tilhugsun að geta gleymt Glitnismálinu ógurlega í smástund yfir skærum litum og björtum ABBA-söng, frekar en að brosa í kampinn yfir svörtum húmor Coen-bræðra. Víkverji var reyndar sannfærður um að hann væri sá eini á landinu sem hefði ekki séð þessa blessuðu mynd og því kom það honum á óvart þegar salurinn reyndist hálffullur þótt liðið væri á fjórða sýningarmánuð. Skýringin sagði sig sjálf eftir því sem leið á myndina.
X X X
Söngvamyndir eru reyndar alltaf furðulegar og það tekur smátíma að venjast því að fólk bresti á með söng í tíma og ótíma, en þegar maður kemst í sönggírinn er hægt að gleyma algjörlega armæðu hversdagsins, ef vel tekst til. Víkverji hefur sjaldan verið í betra skapi en kvöldið sem Glitnir var þjóðnýttur og íslenska hagkerfið riðaði til falls, þökk sé ABBA. Hann bókstaflega sveif á sænskum gleðitónum út úr bíóinu og óskaði þess reyndar undir lokin að hafa farið á „sing-along“-sýningu til að geta fengið útrás ásamt samlöndum sínum með söng í myrkum bíósalnum.

Engin ummæli: