fimmtudagur, febrúar 11, 2010

Sitt af hvoru tagi

Samtök atvinnulífsins, Félag kvenna í atvinnurekstri og Viðskiptaráð hafa komist að samkomulagi um þá stefnu að jafna hlut kynjanna í stjórnum fyrirtækja fyrir árið 2013, þannig að hlutur hvors kyns verði ekki undir 40%. Þóranna Jónsdóttir, framkvæmdastjóri »kvennabankans« Auðar Capital, rökstyður þetta m.a. með því að rannsóknir sýni fram á að stjórnunarhættir breytist þegar bæði kynin sitja í stjórn.Þ.e.a.s. fleiri taka virkan þátt í stjórninni og stjórnarhættir verða gagnsærri, nokkuð sem allir geta núorðið sammælst um að sé jákvætt.

Engu að síður er þetta umdeilt mál og margir eru algjörlega á móti því að verið sé að eyða tíma í að tala um og stefna sérstaklega að því að jafna hlut kynjanna. Það á nefnilega allt saman að gerast af sjálfu sér. Einhverra hluta vegna eru þeir alveg logandi hræddir um að úti í samfélaginu sé heil herdeild af vanhæfum konum sem muni nú flæða inn í stjórnir fyrirtækja í skjóli kúgunaraðgerða og hreinlega lama þau. Hvaðan koma allar þessar vanhæfu konur? Ég veit t.d. ekki betur en konur hafi verið í meirihluta háskólanema á Íslandi í á annan áratug?

Mér er annars minnisstæður félagsfræðitími sem ég sat í menntaskóla þar sem fjallað var um eðli kynjanna. Þar vorum við frædd um að drengir væru hvatvísir, ákveðnir og kappsamir en stúlkur hyggnar, vinnusamar og varkárar. Þetta fór eitthvað í taugarnar á okkur stelpunum í bekknum sem fannst þetta heldur einfeldningsleg fræði og óþægilega í takt við það viðhorf sem okkur fannst við stundum mæta í skólakerfinu: Að ef við stelpurnar stæðum okkur vel væri það vegna þess að við vorum duglegar og iðnar, en ef strákarnir stæðu sig vel væri það vegna þess að þeir voru einhvers konar snillingar frá náttúrunnar hendi. Ég var fegin að geta afgreitt þennan félagsfræðitíma á 40 mínútum, en sú varð ekki raunin því stuttu síðar endurtók hann sig á stærri skala í samfélagsumræðunni.

Þá voru nefnilega launatölur hæstráðenda í fjármálageiranum reglulegt tilefni umtals af ýmsu tagi. Þar á meðal veltu sumir því fyrir sér hvers vegna fáar eða engar konur væru á "ofurlaunum" ásamt þeim hópi óskadrengja íslensku þjóðarinnar sem mestur ljómi stafaði af. Svarið þótti einfalt. Konur höfðu bara ekki drifkraftinn til að ná æðstu stöðum. Þær skorti hörkuna, hvatvísina og áhættusæknina. Þegar fjármálageirinn hrundi þótti hins vegar alls ekki málefnalegt að draga fram þessi sömu rök og benda á að hugsanlega virkuðu þau líka í hina áttina. Það átti ekki að kyngera hrunið.

Persónulega er ég líka algjörlega frábitin svona eðlishyggju, í hvora áttina sem henni er beitt, enda er reynsla mín sú að flest annað en kyn fólks hafi áhrif á hvort ég á samleið með því eða ekki. En hvort sem fólk trúir á "kvenlæga" og "karllæga" stjórnunarhætti eður ei hlýtur að vera jákvætt að nýta hvort tveggja. una@mbl.is

Birtist sem Pistill í Morgunblaðinu 11. febrúar 2010.

Engin ummæli: