Veður eru válynd á Íslandi og jafnvel um hásumar geta þau skipast skjótt í lofti og verið hættuleg þeim sem ekki njóta skjóls fjögurra veggja. Engu að síður er Ísland útivistarparadís og með aðgát má njóta hennar allan ársins hring, jafnvel í slæmu veðri. „Það er ekkert til sem heitir vont veður, bara slæmur búnaður," segir líka frasinn og er ekki fjarri lagi, eða það reynir útivistarfólk allavega að sannfæra sjálft sig um því staðreyndin er sú að ef við biðum alltaf eftir rjómablíðunni væri ekki mikið farið út úr húsi hér á norðurhjara. Þetta finnst sumum hinsvegar alveg óskiljanlegt og eiginlega ófyrirgefanlegt að fólk skuli vera að „ana á fjöll um hávetur".
Slysin gera ekki boð á undan sér og geta orðið alls staðar í öllum veðrum. Þegar útivistarmaður dettur og fótbrýtur sig í snjókomu á Skarðsheiði virðist hann samt eiga mun minni samúð og tillitssemi inni hjá samborgurum sínum heldur en félagi hans sem dettur og fótbrýtur sig á Esjunni í júlí.
Í báðum tilfellum þarf að kalla eftir hjálp til að koma þeim aftur til byggða vegna þess einfaldlega að þegar slysin verða þarf hjálp, alveg óháð því hversu hátt það er yfir sjávarmáli og hvort hitinn er undir eða yfir frostmarki. Þeir sem heima sitja virðast hins vegar margir telja að Esjugöngumaðurinn óheppni eigi allt hið besta skilið, vegna þess að þá er sól (og vegna þess að Esjan er í hæfilegri fjarlægð frá stofugluggum borgarbúa) en Skarðsheiðarmanninum ætti hins vegar að senda reikninginn og helst setja hann í gapastokkinn í leiðinni vegna þess að hann hætti sér út úr húsi í lélegu skyggni.
Nú ætla ég ekki að gera lítið úr því að nauðsynlegt sé að fara varlega og stundum á einfaldlega enginn erindi út úr húsi þegar veðrið er hvað verst. En það er ekki hægt að stjórna náttúrunni og það lýsir heldur ekki miklum skilningi eða náungakærleik að segja að fólk geti bara sjálfu sér um kennt lendi það í slysi við útivistariðkun. Þeir sem virðast helst vilja loka hálendinu og girða náttúruna af til að koma í veg fyrir slys, sem þeir flokka helst sem óþarfa vesen, fara villur vegar. Það gera líka þeir sem vilja að útivistarfólki sé „refsað" með því að sekta það fyrir störf björgunarsveitarmanna eða hreinlega neita þeim um hjálpina. Það eina sem hefst með því er að fólk sem þarf á aðstoð að halda verður tregara til að kalla eftir henni. Björgunarsveitirnar okkar eru eitt það besta sem við eigum, einmitt vegna þess að þær eru skipaðar hæfu ástríðufólki sem hefur sjálft mikla reynslu af útivist í öllum veðrum og er tilbúið að bjóða fram aðstoð sína í sjálfboðavinnu. Mér er til efs að björgunarsveitirnar yrðu skilvirkari væru þær stofanavæddar og settar á fjárlög. Mér er líka til efs að björgunarsveitarfólk gæti setið hjá og neitað þeim sem deila áhugamáli þeirra um aðstoð í neyð. Í staðinn gerum við hin hvað við getum til að styrkja þær. Enda vitum við að hnoðri í norðri verður að veðri þótt síðar verði. una@mbl.is
Birtist í Morgunblaðinu sem pistill föstudaginn 19. febrúar 2010.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli