Á föstudegi - Barnlaus
„Jóna Jóns er heima með lítinn Lasarus." Þetta er orðinn einn algengasti statusinn á Fésbókinni minni. Það er skrýtið hvernig þetta gerist þegar maður dettur allt í einu í barneign. Það er svo stutt síðan ég rak upp stór augu ef heyrðist af jafnöldrum eða skólafélögum sem væru að fara að eignast barn. „Vá, strax?" hugsuðu þá flestir og hvískruðu sín á milli hvort þetta hlyti ekki að vera slys, því varla hefðu þau nú planað þetta.
Svo gerist það hviss, bamm, búmm að allir byrja að raða niður börnum í kringum mann og allt í einu eru hinir barnlausu komnir í minnihluta og jafnvel orðnir svolítið skrýtnir að sumra mati, allavega þeir sem hafa lengi verið í sambandi. „Hvað er hún að slóra við þetta, ætli það sé eitthvað að?" les ég út úr augum fólks og geri mér ekki alveg grein fyrir hvort það er raunveruleiki eða ofsóknaræði í mér.
Ein vinkona mín, jafnaldra og jafnbarnlaus, sat á tali við skólasystur sínar um daginn þegar barst í tal að hún (gasp!) ætti ekki barn. Flestra barna móðirin í hópnum benti henni þá vinsamlega á að líf hennar væri væntanlega ótrúlega innihaldslaust, þar sem hún hefði bara sjálfa sig að hugsa um. Þetta segir reyndar mest um hvernig líf móðurinnar sjálfrar var áður en hún eignaðist barnið, en er engu að síður frekar móðgandi, svona ef maður nennti að standa í því að móðgast sem er reyndar alls ekki fyrirhafnarinnar virði. Svo eru það þessar sem láta skína í mæðratennurnar á Fésbókinni. Ef barnlaus manneskja vogar sér til dæmis að ýja að því að hún sé kannski svolítið þreytt eftir langan dag er viðbúið að þaulreynt foreldri spretti fram til að leiðrétta þennan misskilning:
„OMG þú veist sko ekki hvað þreyta er fyrr en þú ert með tvo tveggja ára á arminum!" Eða ertu kannski barnlaus og dirfist að minnast á að þú hafir átt erfiða andvökunótt? „Jájá, bíddu bara þar til þú ert komin með eitt lítið, þá geturðu sko kvartað yfir andvökunóttum he, he,he!" Þannig virðist vera sem foreldrar eigi einkarétt á þreytu. Og verði þeim að því.
Málið er bara að ég veit allt þetta. Ég veit að það tekur meira á að vera foreldri en einn með sjálfan sig, það þarf ekki að segja mér það þó ég eigi ekki barn sjálf. Ég veit líka alveg að þegar ég eignast barn mun líf mitt öðlast nýjan tilgang. Kannski halda stoltir foreldrar að ég sé eitthvað að misskilja þetta, fatti ekki að það sé frábært að eiga barn og vilja þess vegna bjarga mér frá þessu innihaldsrýra og þreytulausa lífi hinna barnlausu. Ég kann þeim þakkir fyrir meinta umhyggju og fullvissa þá um að ég er ekkert að misskilja, ég ætla að eignast barn og veit það verður frábært, þótt mér finnist líka frábært að eiga ekki barn eins og er, leyfið mér allavega að verða 25 ára fyrst!
Reyndar fæ ég stundum bakþanka yfir þessu, en það er ekki vegna þess að mér finnist líf mitt svo hræðilega innihaldslaust heldur vegna þess að ég fer að hugsa fram í tímann. Ég sé alveg hvað barnabörn og barnabarnabörn veita ömmum sínum og öfum mikla gleði. Því lengur sem ég geymi það að eignast barn, því lengur þarf ég að bíða þar til ég fæ sjálf að upplifa gleðina sem fylgir ömmuhlutverkinu.
Þá er líka þeim mun ólíklegra að ég fái að verða langamma einhvern daginn og ég fæ að njóta þessarar barnasúpu minnar skemur. Hefði ég kannski átt að byrja strax eftir stúdent til að tryggja mér hamingju við eftirlaunaaldurinn? una@mbl.is
Engin ummæli:
Skrifa ummæli