föstudagur, mars 26, 2010

Leiðtogalaust Ísland

Ísland er leiðtogalaust land. Hér er enginn við stjórnvölinn sem sér um að taka allar erfiðu ákvarðanirnar án tímafreks samráðs og kemur svo í Kastljósið á eftir til að brosa uppörvandi til okkar og segja með landföðurlegri ákveðni að þetta verði allt í lagi og við þurfum ekki að vera hrædd lengur. Sem betur fer.

Til eru þeir sem hafa mikla þörf fyrir leiðtoga til að stýra sér í gegnum lífið. Til dæmis hundar. Þeir sem hafa alið upp hunda vita að þeir hafa löngun til að þóknast, hundur sem ekki hefur leiðtoga neyðist til að gegna því hlutverki sjálfur og verður taugaveiklaður fyrir vikið. Þetta hjarðeðli er þó ekki einskorðað við hunda því samskonar taugaveiklun gerir líka vart við sig meðal manna sem sumir geta ómögulega séð ljósið í myrkrinu nema sterkur leiðtogi bendi þeim á það, kveiki helst líka á því sjálfur og teymi þá svo í áttina að því.

Það getur verið þægileg tilfinning að lúta stjórn, setja allt traust sitt á einn mann og geta þannig látið undan hugsanaletinni. Þetta er sérstaklega freistandi og jafnvel heillandi tilhugsun á erfiðum tímum, enda hafa sterkustu leiðtogar sögunnar gjarnan náð hylli á tímum kreppu, sundrungar og óvissu, þegar fólk er hreinlega orðið uppgefið á ástandinu.

Sú saga hefur alla burði til að endurtaka sig á Íslandi, því hér virðast einmitt margir tilbúnir að setja allt sitt traust á sterkan leiðtoga sem geti sagt íslensku þjóðinni hvað hún eigi að gera, talað í hana kjark og leitt hana út úr ógöngunum. Ef hann bara stigi fram og tæki við góðfúslega við keflinu. Þegar pólitíska argaþrasið verður ærandi er svo sem ekki að undra að ákallið eftir foringjanum verði hærra. Lýðræði getur nefnilega verið ansi mikið vesen og að mörgu leyti er auðvitað miklu þægilegra að ákvarðanatakan sé á höndum eins manns.

Enda vörpuðu margir öndinni léttar og réðu sér vart fyrir fögnuði þegar Ólafur Ragnar Grímsson hefðaði sér vald og réðst svo í fjölmiðlaherferð fyrir sig og landið sitt í kjölfarið. Þarna var hann loksins kominn, sterki leiðtoginn sem allir höfðu verið að bíða eftir. Gilti þá einu hvaða hvatir lágu að baki framferði hans. Sterkir leiðtogar eru nefnilega svolítið hættuleg tegund manna, eins og sagan sýnir. Þannig getur vissulega hist á að réttur maður sé á réttum stað á réttum tíma, láti gott af sér leiða og stígi svo til hliðar að því loknu.

Hitt gerist því miður oftar, og stundum með hörmulegum afleiðingum, að þeir séu í misgripum teknir sem sterkir leiðtogar sem sjálfir telja sig vera best til þess fallnir að stjórna öðrum og ríghalda svo í stjórnartaumana vegna þess að þeir eru sannfærðir um að enginn annar eigi erindi upp á dekk. Þægð er ekki leiðin út úr kreppunni og sterkur leiðtogi er ekki lausn á vanda sem þjóðin þarf að leysa saman. Í lýðræðisríki er það nefnilega þjóðin sem á að leiða stjórnmálin, en ekki stjórnmálamennirnir þjóðina. una@mbl.is


Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 24. mars 2010.

Engin ummæli: