„Vitið þið að ef við færum beint af augum þá kæmum við næst í land á Suðurskautslandinu," sagði Snæbjörn vinur minn þar sem við stóðum ofan við Skógafoss og horfðum út á hafflötinn sem virtist teygja sig út í hið óendanlega í heiðskírunni.
Á svona dögum minnir sjórinn mig alltaf á mjúkan rjóma og þá er auðvelt að gleyma því hvað hann getur verið ógnvænlegur. En þótt það lægi svona beint við vorum við alls ekki á leiðinni á Suðurskautslandið heldur í gagnstæða átt þar sem jörðin hefur rifnað og blæðir glóandi kviku. Við vorum auðvitað komin í vímu mörgum klukkutímum áður en sást votta fyrir gosstrókunum. Kannski var það vegna óhóflegrar súrefnisinntöku á leiðinni upp brekkurnar, en aðallega var það fannhvítur Eyjafjallajökullinn, dimmblár himinninn, mosinn, sólin og algleymið, fossarnir og svo vitneskjan um hvað beið okkar sem olli vímunni.
Auk þess, þótt veraldleg gæði eigi samkvæmt bókinni að vera víðsfjarri huga manns í svona aðstæðum, þá veitir útivistin samt líka ánægju sem kallast mætti hégómleg, því það er nefnilega svo gaman að finna hvað hlífðarfötin eru góð. Það fylgir því sigurtilfinning að geta klætt utan af sér vindkælinguna svo frostið verður bitlaust. Það er vegna þessa sem mér hefur lærst að elska ullarnærfötin mín jafnmikið og alla fallegu kjólana mína, sem ég ber þó afar heitar tilfinningar til. Ef ull væri ekki hluti af þessum heimi væri líf mitt sennilega allt öðru vísi og verra en það er.
Á svona fallegum degi þarf ekkert eldgos til að njóta þess að vera úti í náttúrunni enda gleymdum við okkur framan af við að skoða fossana í klakaböndum. En kappið heltók okkur samt þegar nær dró gígunum og við fórum að heyra í hjartslættinum. Því þannig er það, djúpur bassahjartsláttur einhvers staðar úr iðrunum þegar kvikan spýtist upp á yfirborðið. Verst að í fjallgöngu virðist aldrei neitt geta verið á næsta leiti. Eftir næsta leiti bíður nefnilega alltaf annað leiti og svo annað leiti og þetta var satt best að segja farið að vera svolítið ergjandi þegar bullandi eldhafið opnaðist okkur allt í einu og öll þreyta gleymdist.
Það er auðvitað ekki hægt og því tilgangslaust að reyna að lýsa því hversu bilað það er að hafa allt í senn fyrir augunum fullt tungl, stjörnubjartan himin, eldgos og norðurljós og það séð frá náttúrulegum áhorfendapalli í beinni augnhæð við hraunspýjurnar. Upplifunin var allavega svo sterk að bólgnu hnén, sem emjuðu undan kílómetra númer þrjátíu og tvö á leiðinni niður, voru löngu gleymd þegar lagt var af stað í aðra ferð að gosinu áður en vikan var á enda, frá Básum í það skiptið, og sennilega er sú þriðja ekki langt undan.
Sumpart er það þessi djúpi hjartsláttur sem togar fæturna til sín í takt við gosspýjurnar en það er líka meðvitundin um hversu mikil forréttindi það eru að hafa vilja, vöðva og getu til að upplifa náttúruundur. una@mbl.is
Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 7. apríl 2010.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli