Stóra vandamálið - eða eitt af stóru vandamálunum, því þau eru mörg - eitt af stóru vandamálunum við stjórnun á fólki er það hverjir fást til verksins. Eða öllu heldur hverjum tekst að fá aðra til að leyfa sér að stjórna þeim. Í stuttu máli: það er vel þekkt staðreynd að þeir sem þrá að fá að stjórna fólki eru, eðli málsins samkvæmt, þeir sem eru síst hæfir til þess. Í enn styttra máli: hverjum þeim sem tekst að láta kjósa sig forseta ætti undir engum kringumstæðum að vera heimilt að gegna því starfi."
Þannig kemst Douglas Adams að orði í skáldsögunni Veitingastaðurinn við endimörk alheimsins. Forsetinn í sögunni er Zaphod Beeblebrox, tvíhöfða og þriggja arma narsissisti. Ólíkindatól, en hann rifjaðist upp fyrir mér þegar rannsóknarnefnd Alþingis útlistaði niðurstöður sínar í gær. Það tók á að heyra lýsingar Páls Hreinssonar á því hvernig æðstu ráðamenn okkar hlupust, og hlaupast raunar enn, undan ábyrgð.
Á sama tíma og óveðursskýin hrönnuðust upp biðu allir eftir að einhver annar tæki af skarið og niðurstaðan var því sú að enginn gerði neitt. Það er auðvelt að vera við stjórnvölinn þegar allt leikur í lyndi en það er fyrst þegar erfiðleikarnir banka upp á sem virkilega reynir á hvort stjórnendur standi undir starfi sínu. Niðurstaðan er því miður sú að lykilstjórnendur okkar voru vanhæfir og brugðust hlutverki sínu. Samt er það nú svo að enginn þessara æðstu embættismanna virðist nokkurn tíma hafa efast um eigið ágæti. Ég velti því fyrir mér hvort þeir sem tekst að fá okkur hin til að kjósa sig velti nokkurn tíma fyrir sér ábyrgðinni sem þeir gangast þar með við.
Ég get leyft mér að vera vitur eftir á þegar kemur að ríkisfjármálum, enda ber ég ekki ábyrgð á þeim, en sá sem gefur sig út fyrir að hafa þekkingu og getu til að stýra ríkinu fyrir hönd okkar hinna, hann getur ekki leyft sér að vera vitur eftir á. Ef það er eitthvað sem þessi skýrsla leiðir okkur í ljós þá er það sú leiða staðreynd að á Íslandi hefur viðgengist alveg ótrúlegt vanhæfi og amatörismi alveg upp í efstu raðir. Það er hlægilegt að íslensk stjórnvöld hafi í alvöru haldið að Ísland ætti eitthvert erindi í að verða alþjóðleg fjármálamiðstöð þegar engar forsendur voru til þess.
Það er sorglegt að á síðustu metrunum hafi allt kapp verið lagt á að bæta ímyndarvandamál bankanna en litið algjörlega fram hjá því að ímyndin var löskuð vegna raunverulegra vandamála þeirra. Stjórnsýslan á Íslandi hefur verið meingölluð og hana þarf að laga. Boðleiðirnar, sem eiga með réttu að vera stuttar í svona litlu samfélagi, virðast hafa verið bjagaðar og samskipti innan kerfisins stjórnast af öðru en hagsmunum almennings. Rannsóknarnefndin hefur unnið gott starf og við hljótum að vona að skýrslan verði okkur lærdómur til framtíðar. Mér fljúga þó í hug önnur ummæli snillingsins Douglas Adams: „Við lifum og lærum. Jah...við lifum í það minnsta." una@mbl.isBirtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 13. apríl 2010.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli