Peningar hafa verið mér hugleiknir undanfarið og er ég eflaust ekki ein um það. Ég hef sem betur fer ekki þurft að hafa mjög miklar áhyggjur af mínum fjármálum að öðru leyti en því að mér finnst eins og afstaða mín til þeirra sé að breytast og ekki endilega til hins betra. Mér líður eins og peningarnir mínir séu ekki eins mikils virði og mér fannst þeir áður. Sem er reyndar því miður hárrétt því þeir eru allir á krónuformi.
Þetta virðist gera það að verkum að rótgróin varfærni mín í fjármálum, sem sumir vilja kalla nísku, er á hröðu undanhaldi. Þessi lúmska hugarfarsbreyting kemur alveg aftan að mér því einhvern veginn hefði ég haldið að einmitt í kreppu myndi ráðdeildarsemin festa sig endanlega í sessi. Núna stend ég mig hinsvegar að því að kaupa nánast umhugsunarlaust hluti sem ég hefði aldrei leyft mér að kaupa í sjálfu góðærinu, a.m.k. ekki fyrr en eftir langan innri „díalóg" og skothelda réttlætingu, því þá hélt ég mjög vel utan um krónurnar mínar sem í dag eru svona uppburðarlitlar.
Ég hef sett fram kenningar um orsakir þessa nýtilkomna kæruleysis í fjármálum. Frá því ég fékk fyrsta launaseðilinn minn hef ég alltaf verið að safna fyrir einhverju og yfirleitt reynt að fylgja sparnaðaráætlun, lagt hluta af laununum mínum mánaðarlega til hliðar inn á sparireikning sem ég hreyfi ekki við nema af góðri ástæðu. Síðustu ár hefur þessi sparireikningur verið eyrnamerktur framhaldsnámi og lengst af gekk vel að safna, en ekki lengur. Í kjölfarið hef ég smám saman misst metnaðinn fyrir þessu enda fæ ég ekkert út úr því að skoða töluna á sparireikningnum mínum um mánaðamótin. Þeir sem hafa sett sér einhver langtímamarkmið, hver svo sem þau eru, þekkja eflaust þessa tilfinningu.
Þegar árangurinn lætur algjörlega á sér standa missir maður smám saman móðinn og fer að standa á sama. Á einhvern öfugsnúinn hátt virðist þetta hafa þau áhrif að mér finnst sá peningur sem ég þó á ekki vera mikils virði lengur. Ég veit að þegar ég fer í framhaldsnám verður þessi litli sparnaður hvort eð er eins og dropi í hafið á móti skuldunum sem ég steypi mér í, svo til hvers að halda áfram að reyna? Allar vonir um að geta fjármagnað námið að mestu án lána eru löngu orðnar hlægilegar.
Þetta er ein meginástæðan fyrir kæruleysinu. Hin er sú að verðskynið hefur breyst því það sem fyrir stuttu þótti fáránlega dýrt er núna orðið lágmarksverð og lítið samhengi á milli verðs og raunverulegs verðmætis. Í dag er rökstuðningurinn sem ég gef samviskunni áður en ég saxa á sparnaðinn því eitthvað á þessa leið: Annars vegar eru þessir ótrúlega fallegu skór sem eru tæknilega séð allt of dýrir. Hinsvegar þarf að fylla á bílinn fyrir jafnmikinn pening. Bensíntankurinn gufar upp á tveimur vikum, en skórnir munu veita mér ánægju næstu árin. Ég held bara að ég leyfi mér það á meðan ég get. una@mbl.is
Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 28. apríl 2010.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli