fimmtudagur, maí 13, 2010

Æsispennandi eyja

Ég á góða vinkonu í Úrúgvæ sem hefur aldrei komið til Íslands og vissi nánast ekkert um land og þjóð þegar ég kynntist henni fyrir nokkrum árum. Eiginlega var bara eitt sem hún hafði alveg á tæru og það var að á Íslandi væru eldfjöll. „Ég sá einu sinni myndir af Íslandi þar sem menn stóðu við hliðina á glóandi hraunstraumi. Er þetta alls staðar þannig? Hefur þú gert þetta?" var eitt það fyrsta sem hún spurði að þegar ég kynnti mig fyrir henni.

Mér þótt það hálfneyðarlegt að hrista höfuðið og viðurkenna að ég hefði aldrei komist í tæri við alvörueldgos, bara séð smáöskufall frá Heklu. Í dag er þessi vinkona mín að sjálfsögðu fjölfróður Íslandsáhugamaður og ég að sama skapi mun betur að mér um hið ágæta land Úrúgvæ, sem á það sameiginlegt með Íslandi að vera smáríki með minnimáttarkennd í fótbolta. Ég var sérstaklega roggin af því að geta tilkynnt henni um daginn að ég hefði loksins staðið undir ímynd hennar af alvöru Íslendingi og fylgst með eldgosi í návígi. Henni fannst það mjög spennandi.

Flestir sem eitthvað hafa heyrt af Íslandi vita að það er eldfjallaeyja þar sem er stórbrotin náttúra. Þessi sérstaða hefur lengi verið stór hluti af aðdráttarafli Íslands í augum erlendra ferðamanna og því er það svolítið öfugsnúið að þegar á reynir skuli þessi spennandi staðreynd hafa slíkan fælingarmátt. Það skiptir því augljóslega máli hvernig á málum er haldið og hvorri hlið á peningnum snúið upp. Nú hefur ferðaþjónustan á Íslandi ráðist í markaðsátak þar sem ætlunin er m.a. að virkja almenning til að láta jákvæðar fréttir um eldgosið og lífið í landinu berast um sitt tengslanet.

Mér finnst þetta vel til fundið, enda er það alþekkt að jákvætt umtal er langöflugasta auglýsingin. Þetta krefst ekki heldur mikillar fyrirhafnar fyrir okkur Íslendinga því það er ótrúlega auðvelt að vekja áhuga útlendinga enda landið okkar er afar framandi í augum umheimsins þótt okkur finnist það oft hversdagslegt. Það er a.m.k. mín reynsla að ferðamenn sem hingað koma eru alveg í skýjunum yfir því sem fyrir augu ber, þótt oft komi reyndar á óvart hvað höfðar mest til þeirra.

Í maíbyrjun tók ég til dæmis á móti tveimur Bandaríkjamönnum sem voru í sinni fyrstu, langþráðu Íslandsför. Þingvellir fannst þeim nokkuð snotrir og Gullfoss og Geysissvæðið í meðallagi áhugavert. Hinsvegar gripu þau andann á lofti þegar við keyrðum út úr þoku við Þorvaldseyri og stoppuðum í vegarkanti þar sem gjóskustrókurinn stóð upp af Eyjafjallajökli og bar við bláan himin. Það fannst þeim spennandi, að fá að sjá lifandi sönnun þess að þau væru stödd á þessari umdeildu eldfjallaeyju jafnvel þótt það væri bara frá þjóðvegi 1.

„Leyfið fólkinu að koma til eldfjallsins," sagði Haraldur Sigurðarson eldfjallafræðingur á ferðamálaþingi í síðustu viku og hitti naglann á höfuðið að mínu mati. Eldfjallaeyjan Ísland er nefnilega æsispennandi. una@mbl.is

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 12. maí.

Engin ummæli: