fimmtudagur, maí 27, 2010

Fólkið í borginni

Reykjavík er skemmtileg borg þegar hún er upp á sitt allra besta líkt og undanfarna daga. Það sem gerir það að verkum að hún er skemmtileg á dögum sem þessum er að Reykvíkingar, og gestir þeirra, eru sjáanlegir á götunum. Borgir eru ekki skemmtilegar ef borgarbúarnir eru það ekki því rétt eins og Palli komst að þegar hann var einn í heiminum þá er ekkert gaman að hafa heila borg, banka, veitingastað, bíó og strætó ef maður getur ekki deilt því með samborgurum sínum. Án mannlífs eru borgir lítið annað en geymslustaður. Því miður er það oft þannig að götur Reykjavíkurborgar eru með öllu líflausar og ekki ein einasta reykvísk sála á ferli, nema jú kannski inni í bílunum aftan við skyggðar rúður.

Á enskunni er til hugtak sem kallast „people watching". Það er gjörningur sem snýst um það eitt að koma sér fyrir á þægilegum stað og fylgjast með fólki og atferli þeirra. Í Reykjavík eru sjaldan kjöraðstæður fyrir slíkar mannlífsathuganir því maður þarf yfirleitt að horfa á samborgara sína í gegnum rúðu og telst þá jafnvel vera að brjóta á friðhelgi þeirra. Þar sem mannlífið er litríkt er hinsvegar einstök skemmtun að fylgjast með því iða á götunum á milli þess sem maður tekur þátt í því sjálfur. Svo ég nefni dæmi þá hef ég sjaldan séð skemmtilegra götulíf en í Víetnam og þar lærðist mér endanlega sú list að fylgjast með fólki tímunum saman, enda fer þar bókstaflega allt fram fyrir allra augum og undir berum himni, hvort sem það er matreiðsla, kennsla, rakstur og klipping, verslun, bleyjuskiptingar eða morgunþvotturinn. Ég ætlast ekki til þess að Reykvíkingar byrji að þvo á sér kroppinn á götum úti til þess að gera borgina skemmtilegri, en mér varð hugsað til þessa þegar ég heimsótti gömlu þvottalaugarnar í Laugardalnum í blíðviðrinu nú um helgina.

Á upplýsingaskiltum þar er m.a. sagt frá því að þegar þær voru í notkun hafi þvottalaugarnar verið einn vinsælasti viðkomustaður erlendra ferðamanna í Reykjavík, sem gerðu sér ferð þangað til þess eins að fylgjast með skrautlegu mannlífinu við þvottana. Í dag eru ferðamenn heppnir ef þeir komast í snertingu við innfædda Reykvíkinga því það gerist ekki nema á brakandi heitum sólardögum að borgarbúar flykkjast út á göturnar og því miður eru þeir dagar miklu færri en við vildum. Veðrið er því vissulega stór breyta þegar kemur að því hvort reykvískir dagar séu skemmtilegir eða leiðinlegir en ég held samt að með mannvænlegra borgarskipulagi og óbeislaðri sköpunargleði gæti mannlífið í Reykjavík orðið mun skemmtilegra óháð veðrinu. Stundum þegar ég geng um Reykjavík; Vatnsmýrina, við höfnina og Lækjartorg, verð ég sorgmædd yfir því hvað borgin mín er gölluð. Á hinn bóginn hugga ég mig við það að það er ekki útséð um að Reykjavík verði einhvern daginn enn skemmtilegri borg með mannlífi sem ég get gleymt mér við að fylgjast með tímunum saman. una@mbl.is

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 26. maí.

Engin ummæli: