laugardagur, maí 29, 2010

Heimur Unu - Almanakið

Ég hef verið að uppgötva maí sem frábæran sumarmánuð. Ég veit ekki alveg hvað gerðist, er það veðrið sem hefur batnað eða hefur maí kannski alltaf verið svona frábær en ég bara ekki getað notið þess því ég var alltaf í prófum?

Reyndar geymir heili minn óljós minningarbrot af mér sitjandi úti undir bókasafnsvegg með jarðarber í tilraun til að samræma próflestur við sólbað og mjög langar hakkísakk lestrarpásur þess á milli. Þetta bendir til þess að yndislegheit maímánaðar séu engin ný tíðindi þótt ég hafi ekki haft mikið færi á að njóta þeirra hingað til. Nú hef ég upplifað þrjá próf- og skólalausa maímánuði á ævi minni síðan ég komst til vits og ára og þeir hafa verið hver öðrum frábærari undir skínandi maísól hins vinnandi manns. Það er ekkert lítið sem sumarið lengist með þessu.

Reyndar er það þannig að eftir að hafa eytt bróðurparti ævinnar í skóla tekur það dálítinn tíma að brjótast út úr hugarfarinu sem fylgir skóladagatalinu. Samkvæmt skóladagatalinu byrjar sumarið ekki fyrr en í júní og það er búið um miðjan ágúst, alveg óháð því hvort sólin heldur áfram að glenna sig eða ekki. Í raunveruleikanum er það hins vegar þannig að sumarið byrjar um miðjan maí, allavega í góðu árferði, varir út ágústmánuð og teygir sig jafnvel fram í september.

Septemberdag einn í hitteðfyrra lá ég á pallinum hjá foreldrum mínum í steikjandi heitu sólbaði og fyrir tæpu ári fór ég í septemberferð inn í Þórsmörk dúðuð ullar- og hlífðarfatnaði en þurfti að rífa mig úr nánast hverri flík nema gönguskónum því blessuð sólin var svo heit. Ég sé því fram á að sumarfílingurinn, sem byrjaði fyrir hálfum mánuði, muni vara sleitulaust næstu 14 vikurnar eða svo. Ekki slæmt það fyrir land sem kennt er við ís.

Út úr pappakassanum

Þannig hefur mér lærst að brjótast undan viðjum skóladagatalsins. Reyndar hef ég almennt haft frekar illan bifur á því að láta almanök stjórna lífi mínu, alveg síðan ég fór í nokkurra mánaða bakpokaferðalag. Það er stórhættulegt að fara í svona ferðalag get ég sagt ykkur, ekki vegna þess að umheimurinn sé svona háskalegur staður, heldur vegna þess að það er mun erfiðara að sætta sig við lífsmunstur hversdagsins þegar maður neyðist til að snúa aftur heim. Eftir að hafa upplifað það til lengri tíma að það skiptir nákvæmlega engu máli hvaða dagur er og nánast engu máli heldur hvaða tími dagsins þá afhjúpaðist fyrir mér, þræl hversdagsins, að reglur almanaksins og hinnar hefðbundnu vinnuviku eru í raun algjörlega merkingarlaus höft.


Föstudagslegur mánudagur

Hver segir til dæmis að frí þurfi endilega að vera á laugardögum og sunnudögum? Og af hverju ætti maður alltaf að byrja að vinna á sama tíma á morgnana, bæði sumar og vetur þegar líkamsklukka manns segir manni eitthvað allt annað? Þessa dagana er ég t.a.m. oft glaðvöknuð klukkan 5 á morgnana á meðan það kostar mig mikið átak að komast á fætur fyrir klukkan 8 í janúar. Þegar allt kemur til alls eru hugtök eins og „mánudagur" eða „föstudagur" algjörlega handahófskennd og ekkert sem segir að ég þurfi endilega að vera í meira stuði á föstudagskvöldi en á mánudegi. Helgin er svo lengi að líða, hversu lengi má ég bíða, fram á þriðjudagskvöld?

Eftir sem áður er ég tilbúin að samræma lífsstíl minn að einhverju leyti þessum samfélagslega ramma sem dagatalið er, bara svona til að vera ekki með óþarfa derring, en ég tel að það sé öllum hollt að brjótast aðeins út úr þessum viðjum og öðrum sem okkur eru settar af samfélaginu og við verðum allt of auðveldlega samdauna. una@mbl.is

Birtist sem pistill í Daglegu lífi Morgunblaðsins föstudaginn 28. maí.

Engin ummæli: