fimmtudagur, júní 10, 2010

Þræll sólarinnar

Þetta á ekki eftir að endast, það bara getur ekki verið. Veðrið á ég við. Veðrið er aldrei svona gott á Íslandi til lengdar, er það nokkuð? Allavega ekki á höfuðborgarsvæðinu. Í hádeginu í gær lá ég á teppi með bók í höggmyndagarðinum við safn Einars Jónssonar. Það er garðurinn minn, því ég á ekki minn eigin. Í þetta skiptið deildi ég garðinum mínum með nokkrum léttklæddum leikskólabörnum sem blésu sápukúlur og ungum listamanni sem stóð ber að ofan framan við flennistóran striga og sótti innblástur í höggmyndirnar. Ég dottaði út frá bókinni og hitanum frá sólinni og einhvers staðar þarna á milli svefns og vöku varð ég sannfærð um að ég hlyti að vera stödd víðsfjarri í útlöndum, því þetta var eiginlega of gott til að vera satt.
Ég velti því fyrir mér hvaða þjóð sé líklegust til að persónugera sólina og mynda tilfinningatengsl við hana; sú þjóð sem fær meira en nóg af henni eða sú sem er stöðugt sólarþurfi. Ekki veit ég svarið en ég veit að mér er farið að líða eins og sólin sé að ögra mér. Það hlakkar í henni þegar ég reigi mig og teygi undir henni og keppist við að drekka í mig geislana á meðan ég get, á meðan hún lætur ennþá sjá sig.
Sólin hefur nefnilega gríðarlega mikið vald yfir mér og ég held að hún viti af því. Að skipuleggja sumarfríið sitt á Íslandi er svolítið eins og að taka þátt í lottóinu. Uppsker maður eintóma rigningu og rok eða fær maður stóra vinninginn og hittir á sólartímabilið? Af þessum sökum er ég, gegn betri vitund, farin að hugsa þessari einmuna blíðu þegjandi þörfina. Ég fer nefnilega í sumarfrí í júlí. Haldi júní áfram að vera svona sólríkur og dásamlegur, eins og maí var líka, þá stefnir allt í það að ég þurfi að eyða sumarfríinu mínu í regngallanum. Þess vegna stunda ég störukeppni við sólina núna.
Ég er þræll sólarinnar. Þegar veðrið er gott þá einfaldlega verð ég að fara út, því það er engin leið að vita hversu lengi það endist. Þetta er hinsvegar þreytandi kappleikur því það gildir einu hversu vel ég er sofin eða hvað var á dagskránni þann daginn, ef sólin skín inn um gluggann hjá mér í morgunsárið víkur allt annað fyrir útiverunni og í svefnrofunum byrja ég strax að reikna út hvort ég hafi nú tíma til að fara í sund eða gönguferð fyrir vinnu, til að kreista út nokkrar sólarstundir.
Eflaust myndi það veita mér mikið frelsi undan þessari sjálfsköpuðu kvöð að búa í sólríkara landi þar sem sú tilfinning er ekki ríkjandi að sérhver sólardagur sé sá síðasti. Ég áttaði mig á því að þetta væri ekki alveg eðlilegt þegar ég fann til léttis einn morguninn þegar ég byrjaði daginn eins og venjulega á því að gá til veðurs út um svefnherbergisgluggann og sýndist vera skýjað. Skyndilega varð ég mun rórri og hugsaði með mér að nú gæti ég loksins gefið mér tíma til að sofa út, þrífa öskusallann af gólfinu og svara nokkrum póstum. Þegar ég gáði aftur fimm mínútum síðar var sá draumur úti, heiðblár himinn blasti við og ég varð að fara út. una@mbl.is

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 9. júní.

Engin ummæli: