Fyrirmyndarfólk
Þegar ég var lítil þóttist oft ég vera strákur sem héti Kalli. Við Anna vinkona mín bitumst um það þegar við lékum okkur enda fannst okkur Kalli langflottasta strákanafnið. Nema kannski ef við fórum í indíánaleik, þá höfðum við meira frelsi í nafnavali og gátum skáldað eitthvað upp eins og höfðinginn „Grimmi björn" eða töfralæknirinn „Hlæjandi tré".Þessir ímyndunarleikir tóku á sig ýmsar myndir og fóru út um víðan völl, en eitt áttu þeir allir sameiginlegt og það var að við fórum alltaf í hlutverk stráka í leikjunum okkar. Meira að segja þegar við lékum að við værum dýr því þá vorum við yfirleitt dýrin í Hálsaskógi og þar var Lilli klifurmús langmesti töffarinn, jafngildingur Kalla í mannheimum, og Marteinn skógarmús kom fast á hæla honum.
Í þessum leikjum hurfum við inn í eigin ævintýraheim og það þurfti engin sérsniðin leikföng til því hlutirnir breyttust fyrir augunum á okkur í boga og örvar, skip, þverhnípta tinda, hesta og rennandi hraun ef okkur sýndist svo. Þrátt fyrir allt þetta ímyndunarafl vorum við samt ekki nógu frjóar til að leika þessa leiki í hlutverki stelpna, því okkur fannst einhvern veginn ómögulegt að sjá fyrir okkur að stelpur gerðu það sem okkur langaði til að gera. Við vildum nefnilega vera ævintýragjarnar og hugrakkar. Hvorug var tilbúin að skipa sér í hlutverk þess sem verður undir og situr eftir heima eða þarf að vera bjargað og því deildum við hlutverki hetjunnar bróðurlega með okkur. Tveir Kallar.
Eftir á að hyggja finnst mér þetta mjög sérkennilegt en jafnframt kristaltært dæmi um hversu mikil áhrif fyrirmyndir hafa á mann, meðvitað og ómeðvitað. Helstu fyrirmyndir þessara leikja í barnæsku sótti ég í allar bækurnar sem ég las og myndirnar sem ég sá, þar sem strákar voru undantekningalítið í aðalhlutverki í ævintýrunum, bæði atkvæðamestir og skemmtilegastir.
Það er að segja þangað til ég kom höndum yfir Ronju ræningjadóttur og uppgötvaði að mig langaði ekkert meira en að búa í helli úti í skógi þar sem mínar dýrmætustu eignir væru hnífurinn minn og frelsið. Mikilvægustu fyrirmyndirnar í lífinu velur maður sér ekki sjálfur heldur verða þær á vegi manns og hafa oft meiri árif á mann en mann grunar. Við skyldum því vera þakklát fyrir að eiga góðar fyrirmyndir, enda lærðist mér fljótt að ekki aðeins gæti ég verið ævintýragjörn og frökk eins og Ronja, ég gæti líka tamið og járnað hesta, skipt um perur og farið með bílinn á verkstæði eins og mamma, eða látið slag standa og elt drauma mína eins og pabbi og meira að segja orðið forseti, ef ég kærði mig um, eins og Vigdís Finnbogadóttir. Hvatningarátakið Til fyrirmyndar er tileinkað henni 30 árum eftir kjörið og í tilefni af því hefur mér orðið hugsað til foreldra minna, ömmu og afa, kærastans míns, ómetanlegra kennara, vinkvenna minna og margra fleiri sem hafa kennt mér svo margt um sjálfa mig. Takk fyrir að vera til fyrirmyndar. una@mbl.is
Birtist í Morgunblaðinu sem pistill miðvikudaginn 30. júní 2010.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli