Geturðu sofið um sumarnætur? var eitt sinn spurt í ljóði. Senn kemur brosandi dagur. Hitnar þér ekki um hjartarætur, hve heimur vor er fagur? Heimurinn var svo sannarlega fagur í Skaftafelli um helgina og ég gat alls ekki sofið, enda kom brosandi dagur áður en nóttin var einu sinni byrjuð og með honum alveg ljómandi sprækur hrossagaukur sem tók hverja dýfuna á fætur annarri beint fyrir ofan tjaldið mitt og hneggjaði með stélfjöðrunum.
Klukkan var bara 5 og ef þetta hefði verið í bænum og ef þetta hefði verið eitthvert annað umhverfishljóð hefði ég sennilega orðið pirruð á sökudólgnum en í staðinn hitnaði mér um hjartarætur eins og séra Sigurði Einarssyni í Holti þegar hann samdi ljóðlínurnar hér að ofan. Og það veitti ekki af, því það var eins og jökullinn fyrir ofan andaði köldu sem nísti í gegnum tjaldið, svefnpokann og ullarfötin, merg og bein. En það gilti auðvitað einu því hver getur svo sem sofið um sumarnætur?
Áttu ekki þessar unaðsnætur
erindi við þig forðum?
Margt gerist fagurt, er moldin og döggin
mælast við töfraorðum.
Björtu sumarnæturnar eru einhverjar lífvænlegustu stundir á norðurhveli og þess vegna fannst mér merkilegt að sjá hvað erlendu ferðamennirnir í Skaftafelli fóru flestir alltaf snemma að sofa. Eflaust átti að nýta daginn vel með því að ná góðum nætursvefni en það er samt synd að sofa af sér þessar stundir þegar hægt er að sitja og horfa á það eins og bíómynd þegar jökullinn roðnar. Og það var fleira sem ferðamennirnir misstu af þessa helgi, en má segja að ég hafi notið góðs af sjálf.
Svona blasti Morsárdalurinn við á göngu okkar Önna
Þetta var nefnilega í fyrsta skipti síðan ég var barn sem ég fer í Skaftafell og ég hafði ákveðnar hugmyndir um hversu troðið það hlyti að vera, í ljósi þeirrar staðreyndar að Skaftafell er alveg við þjóðveg númer 1 og þjóðgarður í ofanálag. Ég taldi víst að maður gæti ekki gengið að sömu kyrrðinni vísri þar líkt og í Þórsmörk til dæmis, því það krefst meiri fyrirhafnar að koma sér þangað yfir vöðin, með rútu eða á jeppa. Að sjálfsögðu reyndist vera fullt af fólki á tjaldstæðinu í Skaftafelli og þegar lagt var á brattann var nokkuð stöðug umferð á stígnum þennan spotta upp að Svartafossi, en fæstir fóru lengra. Þetta var ein af þessum einstöku helgum þegar allt gengur upp, sumarsólstöður, tær sýn til jöklanna, 20 stiga hiti í þjóðgarðinum. Og þarna gengum við í 8 klukkustundir um Morsárdal í einum ótrúlegasta fjallasal sem ég hef augum litið á Íslandi og mættum ekki einni einustu sálu. Það var eins og við ættum þetta land ein, þótt okkur langaði að deila því með fleiri því þetta var svo fallegt. Svo þegar ferðamenn verða hér orðnir milljón talsins eða fleiri á ári eins og spáð er veit ég hvert er hægt að beina þeim, því þeir eru margir fjallasalirnir þar sem enginn er, hvorki á daginn né um bjartar nætur. una@mbl.is
Birtist í Morgunblaðinu sem pistill miðvikudaginn 23. júní 2010.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli