föstudagur, ágúst 13, 2010

Gerum lífið leiðinlegra

Borgarstjóri varpaði þeirri spurningu fyrir borgarbúa á mánudag hvort réttlætanlegt væri að eyða 3 milljónum króna í flugeldasýningu á Menningarnótt, eða hvort það væri óréttlætanlegt bruðl á þessum síðustu og verstu. Það er ágætt og skemmtilega nútímalegt hjá borgarstjóra að kalla með þessum hætti eftir óformlegri umræðu um ýmis mál meðal borgarbúa, þótt það sé reyndar vitað mál að rökræður á netinu skila aldrei nokkurn tíma af sér vitrænni útkomu. (Til dæmis hafa 660 athugasemdir verið skrifaðar við vangaveltur borgarstjóra en þátttakendur virðast þegar þetta er ritað vera hvergi nærri því að komast að sameiginlegri niðurstöðu.)

En aftur að flugeldunum. Það er afar auðvelt að færa rök fyrir því að flugeldasýningar séu bruðl enda fátt sem kemst nær því að peningar séu beinlínis brenndir, þið kannist við myndlíkinguna sem svo gjarnan er gripið til um áramót.

Flugeldasýningar eru sannarlega ekki lífsnauðsynlegar. Ekki frekar en sumarblómin í beðum borgarinnar eru lífsnauðsynleg. Þau eru samt falleg, gæða borgina lífi og gleðja okkur borgarbúa sem og gesti borgarinnar, rétt eins og flugeldasýningin. Það sama á reyndar við um Menningarnótt í heild sinni, hún er skemmtileg en það er alls ekki nauðsynlegt að halda líflega menningarviðburði. Ef við ætlum okkur virkilega að standa undir nafni sem fátæklingar væri alveg hægt að hætta bara við þetta. Aðrar eins hugmyndir hafa svo sem komið fram síðan kreppan byrjaði, sumir telja til dæmis að svona niðursetningaþjóð eins og við eigum alls ekkert erindi í Eurovision vegna kostnaðar. Reyndar taka öll fátækustu lönd Evrópu þátt af stolti, Moldavía, Albanía, Serbía- og Svartfjallaland. Úkraína, sem er 5. fátækasta land álfunnar, hélt meira að segja keppnina fyrir nokkrum árum.

En sennilega er það rétt að við höfum gert of mikið af okkur, framið of margar syndir, til að eiga það skilið að gera okkur glaðan dag fyrr en við höfum gert ærlega yfirbót.

Hjá sumum þurfa ekki einu sinni sparnaðarmarkmið að ráða því að lífið sé gert leiðinlegra. Ríkissjónvarpið sagði frá því á mánudaginn að gerðar hefðu verið athugasemdir við kleinubakstur dalvískra kvenna á fiskidaginn mikla þar sem lögum samkvæmt mætti í raun ekki selja mat nema hann væri eldaður í viðurkenndu eldhúsi samkvæmt ströngustu gæðareglum. Ætla má því að íslenskir kökubasarar fari brátt að líða undir lok og kannski eins gott að svo verði áður en við fáum öll salmonellu, fyrst heimagerðar hnallþórur eru svona hættulegar. En ég er satt að segja svolítið skúffuð yfir þessu því ég stóð í þeirri trú að þrátt fyrir allt værum við samt ennþá svolítið skemmtileg þjóð sem veigraði sér ekki við að borða bakkelsi án þess að kaupa það úr viðurkenndum eldhúsum og gætum leyft okkur að bruðla svolítið með peninga á hátíðisdögum til að lýsa upp Menningarnæturhimininn. una@mbl.is

Birtist í Morgunblaðinu sem pistill miðvikudaginn 11. ágúst.

Engin ummæli: