miðvikudagur, ágúst 18, 2010

Að útsetja sig fyrir ofbeldi

Kunningi minn varð einu sinni fyrir árás niðri í miðbæ síðla nætur og skilaði sér illa leikinn heim eftir viðkomu á slysadeildinni. Hann man reyndar ekkert eftir þessu sjálfur, en vitni segja að hann hafi verið að ganga fram hjá skemmtistað, í átt að leigubílaröðinni, þegar ráðist var aftan að honum, hann laminn með flösku í höfuðið og svo sparkað ítrekað í hann þar sem hann lá rænulaus í götunni. Árásarmaðurinn er ókunnur.
En kannski hafði árásarmaðurinn minnst með þennan glæp að gera, því þannig vildi nefnilega til að þessi kunningi minn var drukkinn. Hann var að vísu búinn að segja þetta gott og ætlaði að ná sér í leigubíl heim til kærustunnar, en samt sem áður, hann var „útsettur fyrir að lenda í einhverjum vandræðum" og „ekki á ábyrgð neins nema viðkomandi" að hafa verið barinn. Hvað var hann líka að þvælast þetta einn, drukkinn niðri í bæ? Hann mátti vita betur, ekki satt?
Óvíst er hvort þessi kunningi minn hefði haft það í sér að kæra líkamsárásina ef það væri yfirlýst afstaða lögreglunnar að fórnarlömb ofbeldisglæpa ættu að „líta í eigin barm" og „reyna ekki að koma ábyrgðinni yfir á" árásarmennina. Sem betur fer var ekki svo, hann leitaði til lögreglu næsta dag og kærði glæpinn, án þess að finnast hann þurfa að skammast sín fyrir að hafa verið drukkinn eða óttast að hann yrði fyrst og fremst sjálfur talinn ábyrgur fyrir því að ókunnugir menn réðust á hann og beittu hann grófu ofbeldi.

Yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu lét á mánudag hafa eftir sér óheppileg ummæli sem bentu til þess að viðhorfið til fórnarlamba ofbeldisglæpa væri einmitt þetta. Lögregluembættið brást skjótt við og á heiður skilinn fyrir það, en í kjölfarið hafa vaknað upp gamlir draugar í umræðunni um ábyrga og óábyrga hegðun kvenna gagnvart hugsanlegum ofbeldismönnum. Í þessari orðræðu eru gerendurnir jafnan aukaatriði á meðan kastljósinu er eingöngu beint að fórnarlömbunum og hvernig þeirra eigin hegðun leiddi til þess að á þau var ráðist.

Sú almenna regla að hver beri ábyrgð á sjálfum sér á ekki við þegar kemur að ofbeldisglæpum og fórnarlömbum þeirra. Við erum flest sammála því að ofdrykkja sé óráðleg, en við getum ekki samþykkt að með henni færist ábyrgðin yfir á fórnarlambið, jafnvel þótt ástand þess geri ofbeldismanninum með einhverjum hætti auðveldara fyrir að ráðast á það. Sumar konur sem verða fyrir nauðgun eru drukknar. Aðrar eru edrú. Sumar eru fáklæddar, margar eru fullklæddar. Sumar nauðganir gerast á skemmtistöðum, flestar í heimahúsum. Oft þekkja fórnarlömbin árásarmanninn, stundum er hann ókunnugur. Svarið felst því ekki í því að segja konum að hegða sér öðruvísi, klæða sig með öðrum hætti eða vera annars staðar. Það þarf að breyta háttalagi þess sem fremur glæpinn, ekki þess sem verður fyrir honum.


Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 18. ágúst.

Engin ummæli: