miðvikudagur, september 01, 2010

Heima og heiman

Sléttan er gul og teygir sig út að sjóndeildarhringnum. Endalaus flatneskja og fátt sem minnir á Ísland ef ekki væri fyrir blá skilti sem hvert á fætur öðru vísa inn heimreiðina að kunnuglegum bæjarnöfnum: Aðalból, Grund, Húsavík, Drangey. Ummerkin eftir íslenskt landnám er alls staðar að finna við þennan enda Winnipeg-vatns og það gerir mann einhvern veginn kjánalega uppveðraðan.

Í ágústbyrjun fór ég um Íslendingaslóðir í Manitoba í Kanada, 135 árum eftir að fyrstu Íslendingunum skolaði á land á Víðinesi sunnan við Gimli. Ég neitaði að trúa því fyrr en ég tæki á því að íslenskan gengi ennþá mann fram af manni þarna, eftir allar þessar kynslóðir. Það reyndist líka rétt, að mestu, því það virðist vera fyrst og fremst gamla fólkið, það sem ólst upp við íslensku sem fyrsta mál á æskuheimilinu, sem talar hana. En það er nú svo að þótt við Íslendingar hér heima einblínum gjarnan á tungumálið sem grundvöll þjóðernis okkar þá er fleira sem sameinar mannfólkið og ég fann fljótt fyrir því að þarna voru margir sem úthlutuðu Íslandi stóran sess í hjarta sínu þótt þeir kynnu aðeins að tjá það á ensku.

Einn daginn fórum við amma, minn ágæti ferðafélagi, í siglingu á Rauðánni. Íslendingar höfðu talsvert af ánni að segja í kringum landnámið, ekki síst íslenskir „sjantabúar" í sollinum í Winnipeg. Þegar við komum aftur í land kom ung kona með son sinn hlaupandi á eftir okkur og spurði hvort við værum frá Íslandi. Sjálf var hún það ekki, en maðurinn hennar var hinsvegar þriðju kynslóðar Íslendingur og sonur hennar þar með af íslenskum ættum. Hún vildi því endilega heilsa og óska okkur velfarnaðar. Á rölti um Gimli næsta dag mættum við amma konu sem ýtti á undan sér tveimur barnakerrum með skellihlæjandi, ljóshærðum systkinum. Við stöldruðum aðeins við og hlógum að þeim og með þeim. „Ég er amma," sagði konan þá allt í einu til útskýringar. „Ég er amma. Hann er þrjú ár. Hún er eitt ár." Svo brosti hún afsakandi og útskýrði á ensku að þau hjónin væru bæði af fjórðu kynslóð íslenskra innflytjenda og ljóshærðu barnabörnin því fimmtu kynslóðar Íslendingar.

Það sem kom mér því ánægjulega á óvart á þessum slóðum er að þótt íslensk tunga haldi líklega ekki sessi sínum þar mikið lengur mætir manni ótrúleg velvild og hlýja, áhugi og kærleikur meðal þessa fólks sem lítur ennþá á Ísland sem hluta af sínu „heima" jafnvel þótt það hafi aldrei komið hingað. Ég minnist þess ekki að í minni skólaskyldutíð hafi ein einasta kennslustund verið tileinkuð vesturferðum Íslendinga. Samt er þetta saga sem tekur á svo mörgum hliðum samfélagsins og setur okkur í samhengi við umheiminn. Það er hollt fyrir svona litla og einangraða þjóð sem sjálf hefur stundum sýnt landnemum takmarkaðan skilning. Saga þessa fólks á kannski ekki síst erindi nú þegar landflótti er aftur orðinn raunveruleiki á þessu síðari tíma „nýja Íslandi". una@mbl.is

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 1.september 2010.

Engin ummæli: