mánudagur, september 20, 2010

Að vera eða vera ekki Íslendingur

Margir Íslendingar kannast við það að verða vandræðalegir og vita ekki hvert þeir eigi að horfa mæti þeir manni hér úti á götu sem er þeldökkur á hörund. Sjálfkrafa viðbragðið er að virða viðkomandi fyrir sér vegna þess að hann sker sig úr hópnum en í staðinn líta margir grunsamlega snöggt undan til að forðast að vera dónalegir.

Í báðum tilfellum eru viðbrögðin önnur en gagnvart þeim sem ekki vekja athygli með því að skera sig úr hópnum. Okkur er ákveðin vorkunn sem bregðumst svona við enda búum við í afar einsleitu samfélagi. Hver sá sem t.d. hefur nýtt sér almenningssamgöngur í öðrum höfuðborgum Evrópu getur vottað það að ólík andlit venjast fljótt þegar þau eru alls staðar fyrir augunum á manni alla daga. Sem betur fer þarf þessi sjálfkrafa forvitni ekki að þýða að fordómar búi að baki en það ætti þó engum að koma á óvart að á Íslandi viðgengst kynþáttahatur ekki síður en annars staðar og við þurfum að horfast í augu við þá staðreynd en telja okkur ekki trú um að á því sviði eins og svo mörgum öðrum séum við öðrum þjóðum betri. Í vikunni bárust fremur óhugnanlegar fréttir af því að íslenskir feðgar af kúbverskum uppruna sáu sig knúna til að flýja landið vegna ítrekaðra hótana í þeirra garð. Í gær var svo greint frá niðurstöðum rannsóknar sem gerð var við Háskólann á Akureyri, en þar kemur meðal annars í ljós að börn sem eiga forelda af erlendum uppruna eru tvöfalt líklegri til að verða fyrir einelti í skólanum en börn íslenskra foreldra.

Í litlu samfélagi er alltaf auðveldast að kenna utanbæjarmanninum um það sem miður fer og það gera Íslendingar ítrekað. Sem dæmi má nefna að í tveimur skelfilegum morðum, öðru sem framið var á Sæbraut 2007 og hinu í Hafnarfirði nú í ágúst, var dómstóll götunnar fljótur að komast að þeirri niðurstöðu að litháískir glæpamenn væru sökudólgarnir, áður en í ljós kom að í báðum tilfellum reyndist um ástríðumorð íslenskra karlmanna að ræða.

Íslendingar eiga afskaplega erfitt með að meðtaka að einhver sem ekki getur rakið ættir sínar aftur til landsnámsmanna geti samt verið Íslendingur. Þetta fá t.d. ættleidd börn að reyna, börn sem hafa búið hér alla sína ævi og hvergi annars staðar og tala íslensku að móðurmáli uppfylla samt ekki þau ströngu skilyrði sem þarf til að teljast Íslendingur í huga sumra. Það sama á við um Íslendinga sem fæðast og búa erlendis í nokkrar kynslóðir, jafnvel þótt þeir vilji gjarnan kalla sig Íslendinga eru ekki allir landar þeirra tilbúnir að leyfa þeim það, a.m.k. ekki ef þeir tala ekki íslensku. Sama fólk sér samt ekkert að því að kalla kínverska Bandaríkjamenn Kínverja, jafnvel þótt þeir hafi búið vestanhafs í sjö kynslóðir.

Þessi þrönga skilgreining á þjóðerni er hugsunarháttur sem á litla samleið með heiminum eins og hann er í dag. Við erum ekki lengur afskekkt þjóð sem bíður eftir vorskipunum til að fá lykt af umheiminum. Við erum hluti af heiminum og hann af okkur.

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 15. september 2010.

Engin ummæli: