miðvikudagur, október 27, 2010

Fræðsla og boðun

Ég íhugaði hvort ég ætti að æsa mig yfir deilunni um tillögu mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar gegn trúarlegri innrætingu á skólaskyldutíma. Svo komst ég að þeirri niðurstöðu að ég nennti því ekki. Ekki frekar en ég nenni að æsa mig yfir því að líkamsræktarfrömuðurinn Gilzenegger hafi verið fenginn til að myndskreyta símaskrána. Hver notar símaskrá hvort eð er? Er þetta ekki löngu úrelt fyrirbæri? Að sama skapi finnst mér það varla þess virði að láta mig það of miklu varða hvort Nýja testamentinu verður útdeilt til barnanna minna eða ekki. Þótt ég sé ekkert upprifin yfir því, fremur en ef Vottar Jehóva fengju að leggja eina kennslustund grunnskólanemenda undir kynningu á Varðturninum og tíð endalokanna.

Það er kannski til marks um andlega örbrigð mína, eins og biskup kallar það, að mér hrjósi hugur við því að blanda mér í þessa sandkassaumræðu þar sem tillögu um að trúboði sé haldið utan við skólaskylduna er jafnað saman við að banna jólin. Ég velti því til dæmis fyrir mér hvaða erindi það er nákvæmlega sem prestar, sem „kallaðir eru til að þjóna Drottni", eiga við börn á skólatíma ef það er ekki að fylgja þeirri yfirlýstu köllun Þjóðkirkjunnar að „boða Krist og útbreiða ríki hans". Ég átta mig í fullri einlægni ekki á því, en veit ekki hvort ég á að þora að leggja fram þessa spurningu án þess að vera sökuð um fáfræði, fordóma og andúð á kristni.

Ég velti því líka fyrir mér hvort biskup sé ekki að snúa hlutunum á hvolf með því að segja að lítið sé gert úr menntun og reynslu kirkjunnar þjóna þegar lagt er til að kallaðir verði til aðrir fagaðilar þegar áföll dynja yfir. Er það ekki frekar biskup sem gerir lítið úr menntun títtnefndra fagaðila, til dæmis þeirra sem eru með 5 ára háskólamenntun í sálfræði, með því að segja að frekar eigi að kalla til presta, sem býðst að taka eitt eða tvö námskeið í sálgæslu samhliða guðfræðinni? Séra Örn Bárður Jónsson sagði í Kastljósinu í gær að mörkin á milli boðunar og fræðslu séu óljós. Þetta er líklega alveg rétt hjá honum. Ég man til dæmis að þegar ég var í grunnskóla, fyrir ekki svo mjög löngu, var ekki mikill munur á því hvernig mannkynssagan og biblíusögur voru kynntar fyrir mér, sem sannleikur. Ég man líka að ekki var einu orði minnst á önnur trúarbrögð en kristni fyrr en á 8. ári skólagöngunnar og þá var eitt misseri lagt undir stutta kynningu á þeim.

Kristin fræði jafnt sem fræðsla um önnur trúarbrögð eiga fullt erindi við skólabörn, en þar sem mörkin milli boðunar og fræðslu eru svona óljós, er þá ekki einmitt tilefni til að reyna að skýra þær línur? Í öllu falli ætti núna að vera rakið tilefni fyrir kirkjuna til að minna þá foreldra, sem vilja að kirkjustarf sé hluti af lífi sinna barna, á að kirkjan býður upp á öflugt barnastarf í sunnudagaskólanum sem öllum þeim sem hafa áhuga á er frjálst að sækja í sínum frítíma. una@mbl.is

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 27. október 2010.

Engin ummæli: