þriðjudagur, nóvember 02, 2010

Antisportisti fellur

Ég má til með að hrósa íþróttafréttamönnum Ríkissjónvarpsins fyrir að takast óvænt að ná til mín, antisportistans. Íþróttafréttir eru óhemjuleiðinlegt sjónvarpsefni fyrir minn smekk, ekki síst fyrir það hversu einhæft og endurtekningarsamt það er. Það kom þess vegna alveg aftan að mér þegar ég vaknaði upp við það síðasta þriðjudag að ég hafði óvart setið í gegnum heilan sjónvarpsþátt um íþróttir og meira að segja fylgst með af áhuga.

Þetta var þátturinn Sportið, sem ku vera nýr af nálinni. Í þessum fyrsta þætti vakti það meðal annars athygli mína að umfjöllun um fótbolta var aftasti dagskrárliðurinn, sem kalla má hressandi og jafnvel byltingarkennda framsetningu. Sagt var frá fimleikadrottningunum í Gerplu, litið inn á skylmingaæfingu og fylgst með maraþonhlaupurum árla morguns. Óvenjufjölbreytt sumsé og margt annað en bolti í forgrunni. Skemmtilegasta innslagið var samt þegar huggulegur fótboltastrákur var látinn reyna sig í stangarstökki. Það er nefnilega alltaf gaman að sjá hæfileikafólk sem er með húmor fyrir sjálfu sér.

Ég lofa engu, en það er ekki útilokað að ég fylgist aftur með Sportinu í kvöld.

Birtist sem Ljósvakapistill í Morgunblaðinu þriðjudaginn 2. nóvember 2010.

Engin ummæli: