Því er eðlilegt að vera vakandi yfir því hvort eitthvað megi betur fara, því þótt ljóst sé að nauðgunarmál eru flókin og sönnunarstaða erfið hafa samt miklar framfarir orðið síðustu ár og áratugi til að bæta réttarstöðu og viðhorf til þolenda kynferðisofbeldis og ekki fráleitt að vona að við séum enn á þeirri vegferð miðri. T.d. er ekki langt síðan sjálfsagt þótti að karlar gætu komið fram vilja sínum gagnvart konum nánast hvenær sem er óháð samþykki þeirra. Það má gefa sér að í gegnum söguna hafi fjölmargar konur upplifað nauðgun án þess að kunna endilega að koma því í orð eða vekja athygli á því, slíkt var einfaldlega hlutskipti kvenna í þessum heimi. Í dag á hins vegar að heita að konur búi við kynfrelsi og í þessu nýfengna frelsi felst að konur mega stunda kynlíf þegar þær vilja en líka hafna kynlífi þegar þær vilja það ekki.
Þetta með vilja kvenna er samt ennþá eitthvað á gráu svæði. Allavega virðast lögin telja að ganga megi að því vísu að konur vilji alltaf fá karla upp á sig nema þær taki annað sérstaklega fram og það helst með sem háværustum hætti. Samkvæmt íslenskum lögum skiptir ásetningur nefnilega meira máli verknaðurinn sjálfur. Þannig virðist ekki nægja að þolandinn upplifi nauðgun, það telst samt ekki vera nauðgun nema gerandinn hafi ætlað sér að nauðga. Og til þess að gerandinn átti sig á því að hann sé að nauðga þarf þolandinn að segja honum það. Þessu lýsir Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari svona í viðtali DV: „Gerandinn verður að vita að hann sé að brjóta gegn henni þegar hann framkvæmir þetta. Það er ekki nægjanlegt til sakfellingar að viðhafa algjört passívitet. Slíkt er ekki skilgreint sem mótmæli."
Við þekkjum það öll að siðferðiskennd er misjöfn og skilningur manna á því hvernig þeir geti leyft sér að koma fram við annað fólk ólíkur. Þess vegna setjum við lagaramma utan um hvaða hegðun er samþykkt og hver ekki. Í ólöglærðum eyrum mínum hljómar það sérkennilega að láta skynjun glæpamannsins sjálfs á eigin framferði ráða mestu um það hvort það teljist glæpsamlegt eða ekki og að þolandinn þurfi að sanna að hann hafi ekki viljað láta brjóta á sér. Eða þarf maður sem mætir öðrum á förnum vegi að æpa „ég vil ekki að þú meiðir mig!" í vitna viðurvist til að ljóst megi vera að hann vilji sennilega ekki láta kýla sig í andlitið? Kannski er þetta eitt af því sem þarf að skoða og breyta í stað þess að yppa öxlum og láta eins og það sé ekkert við því að gera að tugum kvenna sé nauðgað á Íslandi á hverju ári án þess að refsað sé fyrir það. una@mbl.is
Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 13. október 2010.
2 ummæli:
Frábær pistill. Takk fyrir hann.
Takk fyrir Halla!
Skrifa ummæli