Á laugardaginn gengur þjóðin til kosninga til stjórnlagaþings í fyrsta skipti. Hvernig sem sú vinna fer þá er þetta sögulegur atburður, rétt eins og þeir atburðir sem urðu fyrir tveimur árum og leiddu til þess að þessar kosningar eru nú orðnar staðreynd. Hugmyndir um breytta stjórnaskrá á Íslandi urðu þó ekki til í hruninu, þær hafa verið til umræðu með reglulegu millibili allar götur síðan stjórnarskráin tók hér gildi að danskri fyrirmynd við lýðveldisstofnun.
Ísland er heldur ekki eina landið þar sem komið hefur til endurskoðunar stjórnarskrárinnar, því nágrannar okkar í Noregi, Finnlandi og Svíþjóð hafa gert svipaða hluti. Stjórnarskráin okkar er líka fjarri því að vera fullkomin, það sýna deilurnar sem orðið hafa síðustu ár um þýðingu sumra ákvæða hennar, s.s. um málskotsrétt forseta. Það má því alveg segja að orðið sé tímabært að taka stjórnarskrána til endurskoðunar.
Það þýðir ekki að það þurfi að gjörbreyta henni frá grunni og það þýðir heldur ekki að það sé stjórnarskránni að kenna að bankahrun varð á Íslandi. Bankahrunið og vakning almennings í kjölfar þess skapaði hins vegar tækifæri og grundvöll til breytinga í samfélaginu. Reynslan í gegnum tíðina hefur verið sú að þegar kemur að stjórnskipan stranda breytingar á stjórnmálaflokkunum. Hugmyndin á bak við stjórnlagaþing er því að skapa vettvang fyrir hlutlausa umræðu sem ekki er lituð af pólitískum hagsmunum flokkanna og þörfin fyrir slíka nálgun hefur aldrei verið sárari en nú. Það er líka eðlilegt í ungu lýðveldi eins og á Íslandi, sem hefur ekki einu sinni náð einum mannsaldri. Því lýðræði er ekki fullkomið stjórnkerfi, það má útfæra á marga vegu og það má líka misnota. Lýðveldið Ísland er stofnun sem þarfnast aðhalds og það er eðlilegt að lagfæra það sem ekki reynist vel.
Eftir bankahrunið er eins og Íslendingar hafi rankað við sér, séð matrixið ef svo má að orði komast, og áttað sig á því að kerfið er ekki óhagganleg staðreynd sem grafin er í stein heldur getum við breytt því ef viljinn er fyrir hendi. Þær breytingar þurfa þó að vera markvissar, því að stjórnarskráin þarf að vera meitlaður, skýr og einfaldur texti. Við lestur frambjóðendablaðsins hvarflar að manni að ekki allir af frambjóðendunum 522 átti sig á eðli stjórnarskrár. Það sem ég þarf að vita áður en ég veiti einhverjum atkvæði mitt er hverju viðkomandi vill breyta í stjórnarskránni. Ég get ekki kosið fólk sem segir ekki hvað það vill, heldur gefur aðeins merkingarlausar yfirlýsingar um eigið ágæti. Það hefur enga þýðingu fyrir mig hvort frambjóðandi segir að sér þyki vænt um börnin sín eða telji sig vera með sterka réttlætiskennd. Að því sögðu eru ýmsir í framboði sem hafa skýra sýn á það hverju þurfi að breyta og hvað eigi ekki erindi í stjórnarskrá. Ef allt fer á besta veg hef ég fulla trú á því að stjórnlagaþing geti markað nýtt tímabil á Íslandi, endurheimt traust og búið til sáttara samfélag. una@mbl.is
Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 24. nóvember 2010.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli