miðvikudagur, desember 08, 2010

Væn en ekki græn

Ungt fólk á Íslandi er ekki mjög meðvitað um umhverfismál, hefur litlar áhyggjur af þróun í umhverfismálum og finnur til lítillar ábyrgðar gagnvart umhverfinu, miðað við önnur ungmenni í OECD. Þetta kemur fram í skýrslu sem Námsgagnastofnun vann nýlega upp úr rannsókn Pisa-stofnunarinnar.

Niðurstöðurnar þurfa ekki að koma á óvart og þær má nokkuð örugglega heimfæra á aðra aldurshópa hér á landi. Það læra jú börnin sem fyrir þeim er haft. Íslendingar búa svo vel að þeim stafar lítill ami af umhverfisvandamálum í daglegu lífi. Það er ekki vegna þess að Íslendingar séu svona miklum mun umhverfisvænni en annað fólk, heldur má þetta fyrst og fremst þakka því að Íslendingar eru enn sem komið er of fáir til þess að hér sé farið að þrengja verulega að þeim landgæðum sem við erum svo heppin að hafa. Niðurstaðan er því sú að Íslendingar upp til hópa pæla ekkert sérstaklega mikið í umhverfismálum. Þeir vilja þó gjarnan gefa sig út fyrir að vera einstaklega græn og væn þjóð og hefur raunar tekist merkilega vel til við markaðssetja þá ímynd fyrir útlendingum sem trúa því gjarnan, alveg þangað til þeir koma hingað og sannreyna annað, að hér búi fólk sem sé upp til hópa einstaklega umhverfisvænt í hugsun og háttum. Raunin er hinsvegar sú að hér er flokkun til endurvinnslu að mörgu leyti komin mun skemmra á veg en í nágrannalöndunum, fæstir velta því fyrir sér hvort ljósin séu kveikt eða slökkt í mannlausum herbergjum og vatnið er látið renna viðstöðulaust úr krananum á meðan við tannburstum okkur eða vöskum upp. Við eigum jú nóg af því, ólíkt flestum öðrum íbúum þessa heims, og kærum okkur því kollótt. Þessi dæmi kunna að virðast smávægileg en í þeim kristallast þó ákveðið andvaraleysi gagnvart umhverfinu. Hægt er að nefna veigameiri dæmi, s.s. þá staðreynd að hið hreina og græna Ísland losar mest allra Norðurlanda af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið og er eina landið sem ekki hefur dregið úr losun síðustu 20 árin, heldur aukið hana. Tæra loftið sem við dásömum oft á Íslandi er alls ekki svo sjálfsagt enda fer loftmengun í Reykjavík stigvaxandi vegna bílaumferðar og mælist margsinnis á ári yfir heilsuverndarmörkum. Ef allir jarðarbúar tileinkuðu sér lífsstíl Íslendinga þyrfti 14 jarðir til að auðlindirnar stæðu undir þeim. Á tyllidögum er því gjarnan flaggað að Ísland sé eða eigi að vera leiðandi í heiminum í umhverfismálum. Sannleikurinn er hinsvegar sá að Íslendingar eru skammt á veg komnir hvað varðar almenna meðvitund, umræðu og ábyrgð í umhverfismálum. Vegna þess að við erum heppin, ekki vegna þess að við séum svo dugleg, eru umhverfisvandamál þó enn minniháttar á Íslandi. Það er ekki sjálfgefið. Ef við viljum halda því þannig þurfum við að vera meðvituð um það og taka ábyrgð á því. una@mbl.is

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 8. desember 2010.

Engin ummæli: