miðvikudagur, desember 22, 2010

Andvana andvökur

Fátt er hvimleiðara en að liggja örþreyttur og geta ekki sofið. Andvökur eru svo sársaukafullar að þær eru víða þvingaðar fram sem pynting. (Eða sem „árangursrík yfirheyrsluaðferð“ eftir því hvernig maður skilgreinir hlutina.) Flestir þeir sem upplifa andvökur þurfa hinsvegar ekki að óttast pyntingasveitir erlendra innrásarherja því pyntingameistarinn er vitundin sjálf. Andvökur geta lýst sér þannig að líkaminn liggur algjörlega slakur líkt og slökkt sé á honum, doði í öllum útlimum og andardrátturinn hægur, en hugurinn þeysist um á ógnarhraða, án þess yfirleitt að henda reiður á neinu sérstöku.

Þó kemur það fyrir á andvökunóttum að hugsanirnar verði, að því er virðist, óvenjuskýrar og manni finnst jafnvel að maður hafi náð tangarhaldi á einhverjum stórasannleika sem áður var manni hulinn. Þessi sannleikur er yfirleitt horfinn manni aftur að morgni, nema manni hugkvæmist að rífa sig fram úr og festa hann á blað. Þeir eru samt til sem vinna öll sín bestu verk í andvöku. Þeirra á meðal var Klettafjallaskáldið, Stephan G. Stephansson sem mun hafa ort öll sín bestu verk síðla nætur eftir langa daga við erfiðisvinnu.

Síðustu nótt þegar ég lá andvaka, einu sinni sem oftar, kom mér Stephan til hugar og þóttist ég skynja sterka tengingu okkar á milli. Tími og rúm hafa jú ekkert yfir andvaka sálum að segja, sérstaklega þegar þær eiga snilligáfuna sameiginlega, eins og ég taldi liggja í augum uppi um okkur Stephan þessa nótt. Þarna lágum við andvaka, tveir snillingar og ræddumst við jafnvel þótt Atlantshafið, að ógleymdum 100 árum, skildi okkur að. Þegar næsti vansvefta vinnudagur hófst rámaði mig eitthvað í þessar næturlöngu samræður snillinga og ákvað að endurnýja kynni mín af sköpunarverkum andvökuskáldsins. Þá rann hinsvegar fljótt af mér sjálfsánægjan því afrakstur minnar andvöku er grátlega snauður í samanburði við þær meitluðu hugsanir sem streymdu í bundnu máli fram hjá þjáningarbróður mínum í Klettafjöllum.

Andvakan nærist á hugsunum, hvaða hugsunum sem er, jafnvel hugsunum um það að hugsa. Heilinn neitar að slökkva á sér en þrjóskast um leið við að nýta þá að minnsta kosti tímann í staðinn til að kryfja heimsmálin, frá koddanum. Stephan hafði um sínar vökunætur „séð með vinum sínum þrátt/sólskinsrönd um miðja nátt,/ aukið degi í æviþátt,/ aðrir þegar stóðu á fætur“ á meðan ég get í mesta lagi státað af því að hafa brennt óvenjumörgum kaloríum með því að bylta mér stöðugt alla nóttina.

En síðasta hálmstrá svefnleysingjans er að upphefja sig yfir þá svefnsælu. Það er fróun að telja sér trú um að gallar manns hljóti að vera aukaverkanir meðfæddrar snilligáfu sem blessaðir meðaljónarnir sem sofa svo vært þurfa ekki að burðast með. Ég mun því halda áfram að tengja mig öðrum svefnvana snillingum sögunnar. Einhverja nóttina hlýtur snilligáfa mín, líkt og þeirra, finna sér farveg.


Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 22. desember 2010.

Engin ummæli: