miðvikudagur, janúar 05, 2011

Einkaréttur á tilfinningum

Jólin voru heldur stutt að þessu sinni fyrir minn smekk en engu að síður ánægjuleg enda eitt af fáum skiptum sem öll fjölskyldan sameinast. Þessar samverustundir sem baðaðar eru ljóma kertaljósa og jólastjarna gera það að verkum að jólin eru einn uppáhaldstími minn á árinu. Ég hlusta mikið á jólasálma yfir hátíðarnar enda finnst mér þeir einstaklega fallegir, ekki síst í flutningi Mótettukórsins, sem er að mínu mati besti kirkjukór landsins og vill svo heppilega til að á aðsetur í hverfiskirkjunni minni, Hallgrímskirkju.
Kirkjuklukkurnar sem hringja inn jólin eru líka ómissandi í mínum huga og að þeim loknum hlusta ég ávallt á messuna með öðru eyra enda er hluti af stemningunni að láta á það reyna hvort blessuðum prestinum tekst að tala til mín. Sú er reyndar sjaldnast raunin, því þrátt fyrir að ég kjósi að láta þessar kirkjulegu hefðir skapa fallega umgjörð utan um bjartar stundir með fólkinu mínu á dimmasta tíma ársins þá á jólagleði mín ekki upptök sín í fögnuði yfir sögunni af fæðingu Jesú. Þetta kann að samræmast illa heimssýn þeirra sem sækja viðmið sín í Biblíuna en staðreyndin er sú að þrátt fyrir að ég deili ekki trúartilfinningu þeirra þá finn ég samt líka fyrir náungakærleik, væntumþykju, þakklæti og gjafmildi.
Mér finnst margt fallegt við trú og birtingarmyndir hennar, jafnt í sálmasöng sem hljómfögrum bænaköllum múslíma. En það er ekki fallegt þegar glittir í þá skoðun þess sem trúir að þeir sem ekki deili heimssýn hans séu andlega snauðir og gott ef ekki siðlausir í ofanálag. Þetta er leiðinlegur og óþarfur hroki. Jólin mín eru ekki trúarhátíð heldur hátíð ljóssins og hátíð fjölskyldunnar. Þau eru ekki tilgangslaus, óskiljanleg og hlægileg þótt fólkið mitt sé mér ofar í huga en Jesúbarnið á aðfangadag. Mér finnst ágætt að skreyta þessa hátíð með kirkjulegum hefðum og vel þær úr sem höfða til mín, aðrar skil ég eftir. Svo búum við líka til okkar eigin hefðir, sem hafa ekkert með trúarstofnanir að gera. Á gamlárskvöld fórum við til dæmis hringinn við veisluborðið og nefndum öll eitthvað ánægjulegt sem gerst hefði á árinu sem var að líða. Það er ágæt hefð því öllum er hollt að líta öðru hverju um öxl og taka smá sjálfsskoðun. Við sem gæddum okkur saman á gæsabringum á gamlárskvöld reyndumst öll hafa eitthvað til að vera þakklát yfir frá árinu sem var að líða en sú sem átti erfiðast með að gera upp á milli alls þess sem upp úr stóð var amma. Sem er nokkuð vel af sér vikið í ljósi þess að árin verða brátt 83 talsins og enn er hún sífellt að upplifa eitthvað nýtt, eins og að fara til útlanda til að taka á móti nýjum afkomanda í heiminn og bruna inn í Bása til að fylgjast með eldgosi og norðurljósum.
Ég ákvað að gera þetta að lærdómi mínum þessi áramót og stefna að því að geta staðið í sömu sporum sjálf eftir 60 ár og amma gerir nú. Vonandi á ég jafnmörg góð jól í vændum í faðmi fjölskyldunnar. una@mbl.is
Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 5. janúar 2011.

Engin ummæli: