föstudagur, janúar 14, 2011

Nekt

Nekt er áhugavert fyrirbæri. Allir hafa áhuga á henni, í mismiklum mæli þó, enda engin tilviljun að nekt þykir gera nánast allar vörur söluvænlegri, sama hversu óljós eða súrrealísk tengingin er. Sumir fá mikið út úr óbeislaðri nekt og virðist það jafnvel vera eiginleiki sem á við um heilu þjóðirnar umfram aðrar. Þjóðverjar koma upp í hugann í þessu sambandi, þeir kunna sko að vera naktir. Að þessu leyti fannst mér landkynningarmyndband Inspired by Iceland-átaksins ótrúverðugt, því ljóshærða stúlkan sem sést tipla nakin út í náttúrulaug í einu atriðinu hefði samkvæmt öllum líkindareikningum átt að hitta þar fyrir nakinn Þjóðverja á miðjum aldri. Það er allavega mín reynsla.

En mér er sama þótt ég deili öllum náttúrulaugum landsins með nöktum Þjóðverjum, því þeir eru alltaf svo glaðir þegar þeir eru naktir að maður getur varla annað en hrifist með. Íslendingar mættu íhuga að tileinka sér sömu nektargleði því þá gætum við kannski fengið útlenda ferðamenn (aðra en Þjóðverja augljóslega) til að hætta að vera svona aulalegir í sturtuklefum manngerðu sundlauganna. Þeim finnst mörgum augljóslega óþægilegt að þurfa að sápa sig fyrir framan ókunnugt fólk, en mér finnst bara óþægilegt að horfa upp á vandræðaganginn í þeim þegar þeir reyna að hylja sig eins lengi og hægt er með handklæðinu og snúa svo andlitinu að veggnum í sturtunni.

Mér finnst mjög erfitt að skilja hvernig fólk frá löndum þar sem er skólaskylda með tilheyrandi íþróttatímum getur komist hjá því að venjast við að sturta sig með fólki af sama kyni. Þegar ég var sjálf skiptinemi í Bandaríkjunum var þó nokkru ljósi varpað á þessa ráðgátu. Ég bjó á háskólakampus þar sem var glæsileg íþróttaaðstaða og fór reglulega í ræktina. Fyrstu dagana tók ég með mér handklæði enda voru mjög fínar sturtur í búningsklefanum. Bandarísku íþróttastelpurnar urðu hins vegar standandi hissa þegar þær heyrðu vatn renna í sturtunum og komu jafnvel og kíktu, alklæddar auðvitað, inn í sturtuklefann til að kanna hvort það væri eitthvað bilað. Þegar í ljós kom að einhver var í alvöru að þvo sér í sturtunum urðu þær hrikalega vandræðalegar. Ég hætti þessu því fljótlega og notaði frekar einkasturturnar á heimavistinni til að verða ekki alræmd sem evrópski skiptineminn með nektaráráttuna.

Málið með nekt er nefnilega að hún er ekki vandræðaleg ef allir eru jafnnaktir og jafnsama. Ef einn er í fötum og fitjar upp á nefið fer þetta fyrst að verða eitthvað skrýtið. Þetta sannaðist endanlega fyrir mér þegar ég ánetjaðist einu sinni króatísku nektarbaðhúsi. Það var reyndar fyrst og fremst gufan og sánan sem heillaði mig, en nektin samt líka því henni fylgdi ótrúleg frelsistilfinning um leið og maður vandist því að vera umkringdur nöktu fólki af báðum kynjum. Sem tók svona tvær mínútur því öllum var sama og enginn var vandræðalegur.

Því miður er varla grundvöllur fyrir þessum kúltúr hér vegna smæðar samfélagsins. Þótt nekt geti gert mann bæði glaðan og frjálsan veit ég ekki alveg hvort ég væri undir það búin að nikka bara vinalega til æðsta yfirmanns míns ef ég mætti honum í nektargufubaði.

Birtist sem föstudagspistill í Morgunblaðinu föstudaginn 14. janúar 2011

Engin ummæli: