miðvikudagur, janúar 19, 2011

Lífið við skjáinn

Þegar þessi pistill er skrifaður hefur undirrituð varið um það bil 11 klukkustundum sitjandi fyrir framan skjá. Mér tókst vissulega að byrja daginn á því að hlaupa örfáa kílómetra en eftir það tók við nánast sleitulaus seta. Fyrst fyrir framan borðtölvuna í vinnunni, svo við sjónvarpið, með fartölvuna í kjöltunni. Það er merkilegt hvað hægt er að aðhafast mikið þrátt fyrir að sitja grafkyrr.

Til dæmis kemur fyrir að ég sé að horfa á sjónvarpsfréttirnar með öðru auganu á meðan ég leita að Youtube-myndbandi með hinu, spjalla við þrjá vini á Gtalk, les tvær greinar og skrifa pistil allt á sama tíma. Rannsókn sem gerð var við Kaliforníuháskóla fyrir ekki svo löngu þótti sýna að á þremur áratugum hefði upplýsingaflæðið sem streymir um augu okkar og eyru aukist um 350% þannig að meðalmaðurinn tekur við upplýsingum í 12 klukkustundir á dag.

Ég er sem sagt þrátt fyrir allt undir meðaltalinu þegar þessi pistill er skrifaður. Ýmislegt hefur verið spáð og spekúlerað um áhrif þessarar þróunar í „neyslu" upplýsinga og ekki eru allir á sama máli um hvort áhrifin séu góð, slæm eða bæði. Það er óumdeilanlegt að öll kyrrsetan sem gjarnan fylgir þessari menningu er slæm fyrir okkur, en þegar kemur að heilastarfsemi og andlegu atgervi flækist málið. Því er gjarnan fleygt að virkni heilans sé minni yfir sjónvarpsglápi en þegar maður liggur í fastasvefni og kannski er það rétt, alltént finnst mér hugurinn oft vera á meira iði þegar hann ætti að vera að hvílast uppi í rúmi heldur en þegar ég fjara út við sjónvarpið. Við tölvuskjáinn er heilinn hinsvegar á yfirsnúningi því flestir hafa tileinkað sér þá netnotkun að skipta stöðugt á milli glugga og greina á örfáum sekúndum hvort tenglar vísi á áhugavert efni eða ekki. Að líkindum veldur þetta því að heilinn í okkur breytist bæði til hins verra og hins betra. Ef ég fer þá óvísindalegu leið að dæma út frá sjálfri mér þá virðist mér sem athyglisgáfan skerpist, á sama tíma og athyglisúthaldið veikist, þ.e.a.s. ég held skemur út. Ef myndskeið er ekki byrjað að vera skemmtilegt eftir 5 sekúndur loka ég glugganum og nenni ekki að eyða tíma mínum í það. Blogg og önnur netskrif skanna ég yfir í flýti og ef ekkert grípur athyglina sný ég mér að öðru. Þetta þarf samt ekki endilega að vera slæmt, því þrátt fyrir að talsvert hafi t.d. dregið úr bóklestri hefur meðalmaðurinn aldrei lesið jafnmikið og í dag ef lestur á netinu er tekinn saman.

Þess vegna tek ég öllum þessum upplýsingar á öllum þessum skjáum fyrst og fremst fagnandi, nema þá helst þegar ég sé litla krakka sem hanga til skiptis fyrir framan tölvuna og sjónvarpið í frítíma sínum (alveg eins og ég) og eru að auki látin horfa á dvd-mynd aftan á sætisbakinu í bílnum. Getur þeim lærst að hafa ofan af fyrir sjálfum sér þegar þau búa við stöðugt framboð á afþreyingu? Það er það eina sem ég hef áhyggjur af. Fyrir utan að fá legusár af allri kyrrsetunni. una@mbl.is

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 19. janúar 2011

Engin ummæli: