Tíminn líður, trúðu mér
Nú er miðvikudagur sem þýðir að á morgun er fimmtudagur og svo fer að líða að helgi. Vikulegri helgi. Flestir hafa vanist því að svona gangi tíminn sinn gang, nema nývaknaðir útvarpsmenn. Þegar síga tekur á seinni hluta vikunnar má heyra að sumir útvarpsmenn eru alltaf jafnstandandi hissa á því að tíminn líði. „Góðan og blessaðan daginn, það er heldur hryssingslegt veðrið á þessum...fimmtudagsmorgni! Haaaa, fimmtudagur? Trúirðu þessu, það er bara kominn fimmtudagur?!" segir útvarpsmaðurinn við kollega sinn sem situr alveg jafnsleginn við næsta hljóðnema. „Já, það er nefnilega fimmtudagur. Þetta er ótrúlegt og bráðum verður þessi vika bara búin!" svarar sá og kann enga skýringu á þessari furðu, ekki frekar en í vikunni sem leið þegar fimmtudagur kom líka allt í einu eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Síðustu daga hvers mánaðar verður hissan svo ennþá meiri þegar ljóst er að mánaðamót eru, öllum að óvörum, yfirvofandi. „Janúar er bara að verða búinn, trúirðu þessu?" heyrist væntanlega oft næstu morgna. Þegar kemur að áramótum finn ég þó til samkenndar með útvarpsmönnum, því þá verð ég líka alltaf svolítið hissa.
Birtist sem Ljósvakapistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 26. janúar 2011
Engin ummæli:
Skrifa ummæli