Föstudagspistill - Kvartlífskrísa
Grái fiðringurinn er alþekkt fyrirbæri sem helst er talað um í hálfkæringi í klúrum bröndurum og slúðursögum um hjónaskilnaði og framhjáhald. Staðreyndin er þó sú að grái fiðringurinn er raunveruleg andleg krísa sem margir ganga í gegnum og var skilgreind á ensku árið 1965 sem „midlife crisis“ enda herjar hún á fólk við miðjan aldur. Ýmsar félagslegar breytingar geta orsakað krísuna, sumir upplifa jafnvel margar á sama tíma, t.d. að börnin flytja að heiman, foreldrar deyja, fólk áttar sig á því að æskan er búin og ellin færist nær og finnst það allt í einu ekki hafa afrekað allt sem það hafði ætlað sér í lífinu eða náð þeim frama sem það stefndi að og nú sé tíminn að renna út.
Það er samt ekki bara á miðjum aldri sem hætt er við svona sjálfsmyndarkrísu. Gelgjuskeiðið er auðvitað alræmt, en til er önnur krísa sem þó er ekki eins þekkt og kannski nýrri af nálinni, a.m.k. virðist ekki einu sinni vera til hugtak yfir hana á íslensku. Þetta er svokölluð „quarter-life crisis“ sem gæti útlagst sem kvartlífskrísa á íslensku, með vísan í 25 ára aldurinn, en þessari krísu getur slegið niður hvenær sem er á þrítugsaldrinum.
Af hverju upplifir ungt fólk krísu? Á þessum aldri eru margar mikilvægar ákvarðanir teknar, um val á framabraut, maka, búsetu og lífsstíl. Eftir því sem möguleikarnir verða fleiri verður valið flóknara. (Þetta er auðvitað ekki slæmt í eðli sínu, en getur reynst erfitt). Margir fyllast sjálfsefa og finnst þeir ekki vera að ná nógu skjótum frama og vita ekki hvað þeir vilja gera eða hver þeirra „ástríða“ í lífinu á að vera. Það hefur líka færst sífellt aftar á æviskeiðið að fólk nái fullgildum „fullorðinsaldri". Að minnsta kosti ef viðmiðin eru hjónaband, barneignir, fasteignakaup og framtíðarstarf.
Árið 1960 höfðu 77% bandarískra kvenna og 70% karla tekið öll þessi skref við 25 ára aldurinn, en í dag hafa aðeins um 25% gert það á sama aldri. Annað sem flækir málin er að menntun hefur að einhverju leyti gengisfallið á sama tíma og hún er samt grunnforsendan fyrir því að skapa sér góð lífsskilyrði. Ef þú vilt tryggja þér frama á góðum launum þarftu helst að mennta þig, en stúdentspróf telst vart framhaldsmenntun í dag, og bakkalárgráða í háskóla skilar þér skammt.
Til þess að vera raunverulega samkeppnishæfur þarftu að ljúka meistaraprófi, en það þýðir líka himinhá námslán, enda er margt ungt fólk í dag skuldum vafið. Og hvenær er taktískast að eignast börn í öllu þessu ferli? Er einkvæni raunhæft eða sjálfsblekking? Hvenær er maður tilbúinn að sleppa hendinni af frelsinu sem fylgir því að vera einstaklingur og binda sig niður yfir heimili? Er ég að velja rétta leið eða mun ég ranka við mér um fimmtugt á sjá eftir glötuðum tækifærum? Það sem má þó hugga sig við er að maður hefur 25 ár í viðbót til að vinna sig út úr krísunni áður en sú næsta byrjar.
Birtist sem pistill í Daglegu lífi Morgunblaðsins föstudaginn 18. mars 2011.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli