Ganbare Nippon
Myndböndin sem streymdu um netið frá Japan þegar hamfarirnar dundu þar yfir voru skelfileg, óhugnanlegri en nokkur brelluhönnuður heimsendamynda frá Hollywood hefur hingað til getað ímyndað sér. Enn sér ekki fyrir endann á afleiðingum jarðskjálftans stóra.
Eyðileggingin sýnir hversu lítils mennirnir mega sín í raun gagnvart náttúruöflunum. Jafnvel Japan, sem er eitt þróaðasta og tæknivæddasta samfélag í heimi þar sem hönnun bygginga tekur mjög mið af þeirri ógn sem stafar af jarðskjálftum. Enda þekkja Japanar hana af sárri raun eftir stórskjálfta, s.s. árið 1923 í Tókýó þegar yfir 100.000 manns létust og í Kobe 1995 þar sem 6.000 létust.
Því hefur verið fleygt að engin önnur þjóð í heiminum hafi verið betur búin undir stórskjálfta af þessu tagi en engu að síður eru afleiðingarnar jafnhrikalegar og raun ber vitni.
Þær upplifanir sem við núlifandi Íslendingar höfum haft af vægðarleysi náttúrunnar blikna í samanburði við þessar hamfarir og við hljótum að þakka fyrir að búa þrátt fyrir allt á svæði þar sem jarðskjálftar verða ekki svona öflugir og hættan á tsunami-bylgjum er hverfandi. Á vefsíðu New York Times eru gagnvirkar gervihnattamyndir sem sýna eyðilegginguna þar sem flóðbylgjur gengu á land. Þar sem áður stóð blómleg byggð er nú auðn og rústir. Myndirnar minna helst á loftmyndir sem teknar voru yfir Hiroshima eftir að Bandaríkjamenn vörpuðu þar kjarnorkusprengju 6. ágúst 1945 og nánast öll byggð var jöfnuð við jörðu. Íbúa Hiroshima beið þá verk sem eflaust hefur virst yfirþyrmandi, að byggja nýtt líf á rústunum.
Það tókst. Þegar Hiroshima er heimsótt í dag er fátt sem minnir á harmleikinn sem þar átti sér stað fyrir tæpum mannsaldri. Að atómsprengjubyggingunni undanskilinni, sem látin var standa kynslóðum framtíðar til áminningar, blasir við björt og falleg borg umlukin vatni og laufskrúði. Alls staðar taka íbúar á móti manni af ótrúlegri kurteisi og hjálpsemi með bros á vör. Enda er auðvelt að kolfalla fyrir japanskri menningu og þjóðlífi.
Aðrar myndir sem birtar hafa verið frá afleiðingum skjálftans eru ekki síður merkilegar, þær sýna meðal annars Japana bíða af stillingu og þolinmæði í löngum biðröðum, ýmist eftir því að kaupa matvæli eða að komast að í tíkallasímum til að ná sambandi við ástvini. Aginn og auðmýktin í samfélaginu eru aðdáunarverð. Japanar hafa áður þurft að vinna sig upp úr hörmungum og eyðileggingu, bæði af mannavöldum og náttúrunnar.
Á endanum verða svæðin sem nú eru hulin leðju og rústum eftir flóðbylgjurnar aftur gróin byggð og við eigum að leggja okkar af mörkum til þess. „Ganbare Nippon" eru hvatningarorð sem útleggjast á íslensku sem „ekki gefast upp Japan". Við getum sýnt Japönum stuðning í gegnum Rauða kross Íslands. Söfnunarsíminn er 904 1500.
Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 16. mars 2011.
Eyðileggingin sýnir hversu lítils mennirnir mega sín í raun gagnvart náttúruöflunum. Jafnvel Japan, sem er eitt þróaðasta og tæknivæddasta samfélag í heimi þar sem hönnun bygginga tekur mjög mið af þeirri ógn sem stafar af jarðskjálftum. Enda þekkja Japanar hana af sárri raun eftir stórskjálfta, s.s. árið 1923 í Tókýó þegar yfir 100.000 manns létust og í Kobe 1995 þar sem 6.000 létust.
Því hefur verið fleygt að engin önnur þjóð í heiminum hafi verið betur búin undir stórskjálfta af þessu tagi en engu að síður eru afleiðingarnar jafnhrikalegar og raun ber vitni.
Þær upplifanir sem við núlifandi Íslendingar höfum haft af vægðarleysi náttúrunnar blikna í samanburði við þessar hamfarir og við hljótum að þakka fyrir að búa þrátt fyrir allt á svæði þar sem jarðskjálftar verða ekki svona öflugir og hættan á tsunami-bylgjum er hverfandi. Á vefsíðu New York Times eru gagnvirkar gervihnattamyndir sem sýna eyðilegginguna þar sem flóðbylgjur gengu á land. Þar sem áður stóð blómleg byggð er nú auðn og rústir. Myndirnar minna helst á loftmyndir sem teknar voru yfir Hiroshima eftir að Bandaríkjamenn vörpuðu þar kjarnorkusprengju 6. ágúst 1945 og nánast öll byggð var jöfnuð við jörðu. Íbúa Hiroshima beið þá verk sem eflaust hefur virst yfirþyrmandi, að byggja nýtt líf á rústunum.
Það tókst. Þegar Hiroshima er heimsótt í dag er fátt sem minnir á harmleikinn sem þar átti sér stað fyrir tæpum mannsaldri. Að atómsprengjubyggingunni undanskilinni, sem látin var standa kynslóðum framtíðar til áminningar, blasir við björt og falleg borg umlukin vatni og laufskrúði. Alls staðar taka íbúar á móti manni af ótrúlegri kurteisi og hjálpsemi með bros á vör. Enda er auðvelt að kolfalla fyrir japanskri menningu og þjóðlífi.
Aðrar myndir sem birtar hafa verið frá afleiðingum skjálftans eru ekki síður merkilegar, þær sýna meðal annars Japana bíða af stillingu og þolinmæði í löngum biðröðum, ýmist eftir því að kaupa matvæli eða að komast að í tíkallasímum til að ná sambandi við ástvini. Aginn og auðmýktin í samfélaginu eru aðdáunarverð. Japanar hafa áður þurft að vinna sig upp úr hörmungum og eyðileggingu, bæði af mannavöldum og náttúrunnar.
Á endanum verða svæðin sem nú eru hulin leðju og rústum eftir flóðbylgjurnar aftur gróin byggð og við eigum að leggja okkar af mörkum til þess. „Ganbare Nippon" eru hvatningarorð sem útleggjast á íslensku sem „ekki gefast upp Japan". Við getum sýnt Japönum stuðning í gegnum Rauða kross Íslands. Söfnunarsíminn er 904 1500.
Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 16. mars 2011.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli