sunnudagur, apríl 10, 2011

Landnám í kortlögðum heimi

Fiðringurinn er farinn að láta á sér kræla. Þessi fiðringur sem fylgir því að leifarnar af síðasta snjóskaflinum í portinu fyrir utan eru í þann mund að bráðna ofan í niðurfallið. Sumarfiðringur. Fiðringurinn sem fær mig til að leggjast yfir landakortið og dreyma um ilmandi lággróður og sönglandi læki og hljóðið sem heyrist undan skósólanum þegar maður gengur eftir grýttum slóða og sól sem hitar andlitið og sviðann í húðinni þegar hún verður blóðrisa eftir slagsmál við kræklótt kjarr og um alls konar náttúruhljóð sem vakna til lífsins og hlaða líkamann af orku. Ég er ekki búin að ákveða hvert ég ætla í sumar en það verður eitthvað nýtt. Það er svo gaman að fara um nýjar slóðir, berja augum nýtt útsýni og það góða við Ísland er að hvert sem förinni er heitið eru góðar líkur á því að maður sé löngum einn á ferð og geti því ímyndað sér að maður sé að uppgötva hvern stað fyrstur manna. Landnemi.

Landnám er óstjórnlega heillandi og ævintýraleg tilhugsun því spennan felst í því óþekkta. Hvað svo sem veldur þá hafa alltaf verið til menn sem eru haldnir þessari þörf fyrir að halda af stað til móts við hið ókunnuga í von um að þar leynist eitthvað nýtt og betra en fyrir er, tækifæri til að byggja upp nýjan heim eða dýpka skilning sinn á þeim gamla. Sennilega liggur þetta djúpt í mannlegu eðli. Börn eru haldin eðlislægri forvitni og finna mikla gleði við að uppgötva eitthvað nýtt. Þegar ég var krakki var það mér mikið kappsmál að fá að uppgötva nýja staði sjálf. Ef við ferðuðumst á einhvern nýjan stað, þótt ekki væri nema í látlausan sumarbústað, fór óstjórnlega í taugarnar á mér að vera í seinna hollinu, ef það þýddi að systkini mín eða frændsystkin væru komin á undan mér á staðinn og búin að rannsaka hann. Ég vildi ekki láta sýna mér hluti, ég vildi skoða þá sjálf og segja svo öðrum frá mínum uppgötvunum.

Það var sama áhugamál sem olli því að Jóakim Aðalönd og Lára Ingalls voru meðal uppáhaldssögupersónanna minna, þótt ólík væru. Bæði voru þau landnemar sem þvældust um erfiðar og jafnvel óvinveittar slóðir ókunnrar heimsálfu, sá fyrrnefndi í leit að gulli og gimsteinum en sú síðarnefnda í leit að góðum stað til að byggja sér heimili og lifa af landsins gæðum. Í einni af sögum Don Rosa um Jóakim er hann orðinn gamall og hrumur fyrir aldur fram. Þrátt fyrir allt sitt ríkidæmi og auð vantar hann lífsfyllingu því ekkert er lengur óvænt undir sólinni. Hann er búinn að rannsaka allan heiminn, að hann telur, og fyllist lífsleiða þangað til hann fær tækifæri til að fara út í geim og uppgötva þar ókönnuð svæði. Ég fann til samkenndar með Jóakim Aðalönd í þessari sögu því andi landnemanna er varla til lengur á jörðu sem er óðum að fyllast af fólki. Þangað til ég kemst út í geiminn verð ég því að láta mér nægja að ímynda mér að ég fari um ókortlagðar slóðir í týndum ævintýradal á norðurskauti. una@mbl.is

Birtist í Morgunblaðinu sem pistill miðvikudaginn 30. mars 2011.

Engin ummæli: