fimmtudagur, mars 03, 2011

Margbreytilegt samfélag

Rasistar hafa skotið upp kollinum í íslenskum fjölmiðlum það sem af er ári og fengið þar dálítið rými. Þessir rasistar virðast sækja flestar sínar hugmyndir um eigið ágæti í afrek annars fólks sem svo vill til að hefur svipað litarhaft. Einn þessara yfirlýstu rasista boðar trú sína á vefsíðu sem tileinkuð er sköpun hinna „stórfenglegu hvítu karla".
Sá maður telur sér trú um að hann sé öðrum æðri vegna þess að Rembrandt málaði stórkostleg málverk, Verdi samdi hljómfagra tónlist og Thomas Edison var snjall. Þeir voru allir hvítir á hörund en þar með lýkur sennilega upptalningu á því hvað íslenski rasistinn á sameiginlegt með þeim.
Allavega hefur farið lítið fyrir því að hæfileikar þessara merkismanna hafi skilað sér niður kynstofninn til hans og alls óvíst að þeir væru sjálfir sammála því að þeirra eigin sköpunarverk segðu nokkuð til um tilvistarrétt fávíss Íslendings áratugum og öldum síðar.

Sem betur fer eru rasistar sjaldséðir fuglar hér á landi og málflutningur þeirra dæmir sig yfirleitt sjálfur, svo litaður af vanþekkingu og heimóttarskap sem hann er. Einn rasistanna sagði til dæmis að Ísland væri fyrir Íslendinga, vegna þess að Ísland hefði verið fyrir Íslendinga í upphafi og af hverju ætti það að breytast? Honum sást hins vegar yfir það að víkingarnir, hverra arfleifð hann vill svo gjarnan varðveita, voru alls ekki Íslendingar þegar þeir komu hingað og Ísland var alls ekkert fyrir einn eða neinn. Það var bara þarna.

Samfélagið sem hér byggðist upp á landnámsöld var fjölmenningarsamfélag þar sem fólk af ólíkum uppruna og með ólík tungumál og trú settist að í nábýli. Smám saman varð það einsleitara og jafnframt einangraðra. Einangrunin er það sem einna helst hefur íþyngt íslensku samfélagi í gegnum tíðina enda er það svo að í opnum samfélögum er velsældin jafnan mest en einna minnst í lokuðustu samfélögum heims. Má þar að nefna sem dæmi N-Kóreu. Innflytjendum hefur farið fjölgandi síðustu ár og líkt og hjá landnámsmönnunum sem komu hingað fyrst er það ákveðin samsuða af kjarki, ævintýrahug og þrá eftir betra lífi sem knýr fólk til að leita nýrra heimkynna.

Á síðum Morgunblaðsins síðustu daga sögðu innflytjendur frá sinni reynslu í íslensku samfélagi. Eins og gefur að skilja upplifa flestir margskonar erfiðleika við að aðlagast nýrri menningu en engu að síður voru þeir innflytjendur sem rætt var við allir sammála um að reynsla þeirra væri fyrst og fremst jákvæð og að Íslendingar mæti þeim með almennri vinsemd. Þessi vitnisburður er íslensku samfélagi mjög til hróss. Við búum við þá stöðu að fjölmenningin var lengur að teygja sig hingað en til nágrannalandanna, enda Ísland efst á óskalista fæstra. Við getum því lært af mistökum annarra og gert betur og það munum við án efa gera svo lengi sem við höldum áfram að taka vel á móti öllum þeim sem vilja taka þátt í því að byggja hér upp blómlegt samfélag.


Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 2. mars 2011.

Engin ummæli: